Myndin sýnir skip íslensku útgerðarinnar Sæblóms í Marsa í Marokkó þann 22. apríl síðastliðinn. Skipið, sem heitir Que Sera Sera, strandaði í árslok 2009.
"Í mörg ár hafa íslensk fyrirtæki eins og Fleur de Mer stundað ólöglegar og ósiðlegar veiðar við hið hertekna landsvæði Vestur-Sahara," segir á heimasíðu samtakanna WSRW, Western Sahara Resource Watch, sem greinir með gagnrýnum hætti frá nýtingu erlendra þjóða á auðlindum landsvæðisins Vestur-Sahara fyrir sunnan Marokkó.
Þarna er vísað til íslenska útgerðarfyrirtækisins Sæblóms sem átti og rak þrjú skip í strandbænum Laayoune í Vestur-Sahara. Skipin veiddu aðallega makríl og sardínu. Á síðunni er Sæblóm á lista yfir þau fyrirtæki sem talin eru stunda ólögmæta starfsemi við strendur Vestur-Sahara.
Ríkistjórnin í Marokkó hefur ráðið yfir Vestur-Sahara í nærri 40 ár, allt frá árinu 1975. Þá ákvað spænska ríkisstjórnin að hverfa frá landsvæðinu sem hafði verið spænsk nýlenda um árabil. Deilt hefur verið um yfirráð landsvæðisins síðan og telja heimamenn, sem eru um 500 þúsund og kallast Sahrawi-menn, að stjórn Marokkó eigi ekki réttmætt tilkall til svæðisins. Stjórn frelsishreyfingarinnar Polisario er í útlegð og berst fyrir sjálfstæði svæðisins frá Marokkó.
Nærri 500 milljarða gjaldþrot
Sæblóm var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar 2010. Sæblóm átti franskt dótturfélag, Fleur de Mer, sem rak fjögur frystihús í Vestur-Sahara og Marokkó auk skipanna þriggja. Skipin voru smá í sniðum í samanburði við verksmiðjustogara Samherja, í kringum 50 metrar á lengd og á bilinu 700 til 1.000 brúttótonn. Samtals störfuðu um 800 manns hjá útgerðinni á sjó og í landi. Fasteignafélagið Nýsir, sem var í eigu Sigfúsar Jónssonar og Stefáns Þórarinssonar, stofnaði útgerðina í Marokkó árið 2006 en Björgvin Ólafsson skipamiðlari keypti meirihluta í útgerðinni vorið 2008. Skipin sem útgerðin rak í Afríku hétu Quo Vadis, Carpe Diem og Que Sera Sera en það síðastnefnda strandaði í sandfjöru við Marokkó í árslok 2009.
Skiptum er lokið á búi Sæblóms og fundust engar eignir í búinu upp í tæplega 470 milljóna króna kröfur samkvæmt starfsmanni skiptastjóra þrotabúsins, Benedikt Sigurðssyni. Skiptunum á búinu lauk í lok mars síðastliðins. Samkvæmt starfsmanni skiptastjórans lýsti fyrirtækið Great Northern International nærri 175 milljóna króna kröfu í búið, sýslumaðurinn í Hafnarfirði lýsti kröfu upp á rúmlega 128 milljónir króna og tollstjóri lýsti kröfu upp á tæplega 105 milljónir króna. Tæplega 30 aðrir kröfuhafar lýstu kröfum í búið. Stærsti hlutinn af kröfunum var því vegna vangoldinna gjalda og skatta að sögn starfsmanns skiptastjórans.
Nánar er fjallað um málið í DV í dag.
