Færslur: 2013 Mars

31.03.2013 23:06

,,LÖGGUBÁTURINN" Vinur GK 96, kemur með Hafdísi GK 202 að landi

Hér kemur syrpa af því þegar Vinur GK 96 dró Hafdísi GK 202 að landi í Grófinni, í Keflavík. Milli manna hefur Vinur, bæði sá gamli og eins sá sem nú er, gengið undir nafninu ,,LÖGGUBÁTURINN"  þó ekki í neiðkvæðri umræðu, heldur jákvæðri en ástæðan er að það er lögreglumaðurinn Hörður Óskarsson sem átt hefur báða þessa báta og oftar en ekki hefur hann bjargað bátum sem hafa verið bilaðir, að landi og stundum hefur þetta gerst þegar hann er á vakt og hefur þá þurft að fara út á Vini öðrum til hjálpar, eins og í þessu, sem ég segi nú frá á myndræna vísu, en þetta tilfelli  er margra ára gamalt, en þar eru tveir einkennisklæddir lögreglumenn um borð, þ.e. er Hörður Óskarsson og Valur Gunnarsson. Sjást þeir báðir á myndunum og á síðustu myndinni er að auki komnir fleiri lögreglumenn til að taka á móti þeim. Myndirnar eru allar teknar í Grófinni, þegar bátarnir eru að koma þangað.

Báðir þessir bátar eru ennþá til, 7464. Vinur GK 96, heitir í dag Fönix SH 3  og 7189. Hafdís GK 202, ber ennþá þetta sama nafn.


                   7464. Vinur GK 96 og 7189. Hafdís GK 202, komnir í Grófina, Keflavík fyrir mörgum mörgum árum © myndir Emil Páll

31.03.2013 22:45

Þórkatla II GK 197 o.fl.


              1013. Þórkatla II GK 197 o.fl. við bryggju í Grindavík © mynd Emil Páll

Smíðanúmer 209/23 hjá Skaalures Skibsbyggeri A/S, Rosendal, Noregi 1966, eftir teikningu Egils Þorfinnssonar, Kom til nýrrar heimahafnar á Flateyri, fimmtudaginn 20. feb. 2003. Yfirbyggður af Skipasmiðjunni Herði hf., við bryggju í Njarðvík 1984. Seldur úr landi til Noregs í janúar 2008 og fór þaðan í brotajárn til Danmerkur í febrúar 2008.

Nöfn: Þórkatla II GK 197, Akurey SF 31, Sjöfn ÞH 142, Rún EA 851, Særún EA 351, Sólrún EA 351, Halli Eggerts ÍS 197 og Halli Eggerts (í Noregi).

31.03.2013 21:45

Sóley KE 15

Fyrir nokkrum árum vissi ég að báturinn var ennþá til á Orkneyjum og bar þá síðasta nafnið sem hann hafði hérlendis, þ.e. Aron. Að vísu var hann ekki skráður með það nafn, vegna þess að í raun var búið að dæma bátinn úr leik, er menn vildu fá hann skráðan að nýju sem Aron og sem vinnubátur, en fengu ekki. Fóru leikar því þannig að honum var siglt út þar sem þarlendir aðilar höfðu keypt bátinn og notuðu hann sem vinnubát.


 


                 1217. Sóley KE 15, í Keflavíkurhöfn © myndir Emil Páll
 

31.03.2013 20:45

Valþór KE 125 o.fl.


             1170. Valþór KE 125 ( sá græni) o.fl. í Njarðvíkurhöfn © mynd Emil Páll

 

Smíðanúmer 16 hjá Stálvík hf., Arnarvogi, Garðahreppi (nú Garðabær) 1971, eftir teikningu Ágústs G. Sigurðssonar.

Rifinn niður í Krossanesi við Eyjafjörð í nóv. 2007.

Nöfn: Trausti ÍS 300, Valþór KE 125, Sævík SI 3, Andey SU 150, Andey SH 242, Andey BA 125, Skúmur GK 111, Óseyri GK 1, Bervík SH 342, Klettsvík SH 343, Baldur Árna ÞH 50 og Páll á Bakka ÍS 505

31.03.2013 19:45

Ægir Óskarsson GK 89


             1215. Ægir Óskarsson GK 89, á leið út úr Keflavíkurhöfn © mynd Emil Páll, á 8. áratug síðustu aldar

Stórviðgerð 1971 og þá var hann dekkaður og skráður sem fiskiskip. Hann sökk skammt undan Svínalækjatanga á Langanesi 28. sept. 1978 og áhöfnin 2 menn bjargaðist fyrst yfir í gúmíbát og síðan bjargaði áhöfn Langaness ÞH 231 þeim.

Nöfn: Faxaborg GK 89 og Ægir Óskarsson GK 89

31.03.2013 18:45

Ólafur Sólimann KE 3


             1209. Ólafur Sólimann KE 3, í Keflavíkurhöfn © mynd Emil Páll, 1972

Smíðanr. 45 hjá Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernhardssonar, Ísafirði 1972, Kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Keflavík 2. mars 1972. Yfirbyggður hjá Vélsmiðjunni Stál hf. Seyðisfirði 1988. Seldur úr landi til Írlands  20. desember 1994 og þaðan til Króatíu 2004.

Nöfn: Ólafur Sólimann KE 3, Pólstjarnan KE 3, Freyja GK 364, Freyja SO, Kelly J. ( Írlandi) og Keli (Króatíu)

31.03.2013 17:45

Hlíf SI 24 o.fl. í Keflavík


                     1103. Hlíf SI 24 o.fl. í Keflavík © mynd Emil Páll, 1974

Smíðanr. 3 hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar hf., Seyðisfirði 1970, eftir teikningu Ólafs Jónssonar og Stefáns Jóhannssonar. Stækkaður Keflavík 1977. Lengdur 1985-1986.  Fórst 10 sm. V. af Þrídröngum á siglingu til nýs útgerðarstaðar í Grindavík 22. feb. 2002, ásamt tveimur mönnum.

Nöfn: Einar Þórðarson NK 20, Hlíf SI 24, Hafborg KE 54, Búi EA 100, Otur EA 162 og Bjarmi VE 66.

31.03.2013 16:45

Skógafoss


                      985. Skógafoss, í Straumsvík © mynd Emil Páll

Með þessu skipi fór ég í eina ferð sem háseti, í afleysingu að sumri á unglingsárum mínum. Farið var m.a. með hesta frá Reykjavík og siglt til Húsavíkur þar sem tekinn var Kísilgúr og síðan var farin rútan Belgía, Holland og Þýskaland og heim aftur. Ekki voru ferðir mína á farskipum fleiri.

31.03.2013 15:45

Boði KE 132


               971. Boði KE 132, í Keflavíkurhöfn  © mynd Emil Páll

Smíðanúmer 407 hjá V.E.B. Elbe-Werdt G.m.b.H, Boizenburg, Þýskalandi 1965, eftir teikningu Hjálmars R. Bárðarsonar. Yfirbyggður Noregi  1986.

Stakksvík hf., Keflavík var með skipið á leigu frá því að Íslenskir aðalverktakar eignuðust skipið og þar til leigusamningurinn rann út 4. jan. 1995.

Úreldingastyrkur samþ. 12. jan. 1995, en ekki notaður.

Nöfn: Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 102, Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 364,  Boði KE 132, Boði GK 24,  Eldeyjar-Boði GK 24, Aðalvík KE 95, Sævík GK 257, Valur ÍS 82, Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 25 og núverandi nafn: Fram ÍS 25

31.03.2013 14:45

Bára GK 24


                 964. Bára GK 24, í Njarðvíkurhöfn © mynd Emil Páll

 

Smíðanr. 32 hjá Örens Mek. verksted i Trondheim, Noregi 1964 og var 4. skipið sem sú stöð smíðaði fyrir íslendinga. Yfirbyggður 1989. Ný brú, Akureyri 1996.

Nöfn: Bára SU 526, Bára GK 24, Gissur hvíti SF 55, Gissur hvíti HU 35, Narfi VE 108 og núverandi nafn Stafnes KE 130

31.03.2013 13:45

Svanur KE 90 og löguð mynd frá Krúsa


                   929. Svanur KE 90, kemur inn til Keflavíkur © mynd Emil Páll

                                         - o -

Markús Karl Valsson tók sig til að lagaði þessa mynd fyrir mig og færi ég honum þakkir fyrir


             929. Svanur KE 90, eftir að Krúsi var búinn að fara höndum um myndina

31.03.2013 12:45

Hegri KE 107, Svanur KE 90. Sæþór KE 70, Bergvík KE 55 o.fl.


             929. Svanur KE 90, 1170. Sæþór KE 70, 323. Bergvík KE 55, 848. Hegri KE 107 o.fl. í Keflavíkurhöfn fyrir xx árum © mynd Emil Páll

31.03.2013 11:45

Sævar KE 19 - Fyrir og eftir strand


                        867. Sævar KE 19, að koma inn til Keflavíkur © mynd Emil Páll
                 867. Sævar KE 19, á strandstað í Sandgerði, í feb. 1980 © myndir Emil Páll


Smíðaður í Nyköping M., Danmörku 1960, eftir teikningu Egils Þorfinnssonar, Keflavík.

Strandaði í Sandgerðishöfn 15. feb. 1980. Slysavarnarsveitin Sigurvon í Sandgerði fékk bátinn gefins frá Vélbátatryggingu Reykjaness, þar sem hann var á strandstað í Sandgerðishöfn. Rifu þeir það nýtilega úr bátnum og brenndu síðan skrokkinn í grjótfyllingu í höfninni 30. ágúst 1980.

Nöfn: Valafell SH 157 og Sævar KE 19.

31.03.2013 10:45

Hegri KE 107 - síðan Hellisey VE 503 sem kvikmyndin Djúpið fjallaði um


              848. Hegri KE 107, síðar m.a. Hellisey VE 503, í Keflavíkurhöfn © mynd Emil Páll

Smíðaður í Barenfleth, Vestur - Þýskalandi 1956. Stækkaður 1966. Fórst 12. mars 1984, 3 sm. A af Vestmannaeyjum ásamt 4 mönnum, en einum skipverja tókst að synda í land og sýna þar með mikla hetjudáð og varð það efnisþráðurinn í kvikmyndinni Djúpið.

Nöfn: Júlíus Björnsson EA 216, Sævar KE 105, Hegri KE 107, Sigurvon AK 56, Sigurvon SH 121 og Hellisey VE 503

 

31.03.2013 09:45

Una María GK 979 og Byr KE 33


            841. Una María GK 979 og 1214. Byr KE 33, í Keflavíkurhöfn © mynd Emil Páll

841. Umb. í Hafnarfirði 1962. Fargað.

Nöfn: Særún KÓ 9 og Una María GK 979

1214. Smíðaður hjá Skipasmíðastöð Austfjarða hf., Seyðisfirði árið 1972. Stórviðgerð í Njarðvík 1972.

Sökk við netadrátt skammt undan Hópsnes við Grindavík, 12. apríl 1972. Var þá aðeins tæplega eins mánaðar gamall. Náð upp fljótlega aftur.

Sökk undan Tröllakirkju á Snæfellsnesi 16. nóv. 2002.

Nöfn: Hafliði Guðmundsson GK 210, Byr GK 27, Byr KE 33, Hugi RE 141, Hugi BA 49 og Kristján S. SH 23

Af Facebook:

Sigurbrandur Jakobsson Var í eigu frænda minna sem Byr RE 141 og Hugi BA 49 man alltaf eftir honum fallega blámáluðum hjá Hafsteini frænda í Flatey