grindavik.is:
Júlíus Sigurðsson, skipstjóri á Daðey GK frá Grindavík var brattur, þegar Brimfaxi ræddi við hann um gang mála. "Þetta er skemmtilegasti tími ársins í veiðunum, þegar maður þarf að sækja í aðrar tegundir en þorsk og ýsu, eins og löngu og keilu og þarf að hafa fyrir hlutunum. Þá er verðið á mörkuðunum líka hátt. Það getur hins vegar verið stutt á milli þess að gera góðan túr eða búmma og það er dýrt að búmma báða dagana sem gefur á sjó í sömu vikunni, þegar veðrið er erfitt.
Þegar þorskurinn gengur svo á slóðina geta allir veitt hann. Það liggur við að það sé eins og að fara út í fiskeldiskví að sækja fisk," sagði Júlíus.
Daðey GK 777 er yfirbyggður plastbátur frá Trefjum með línubeitningarvél um borð. Þeir róa með 13.500 króka, sem þykir ekki mikið nú, þegar stóru línubátarnir eru með um 18.000 króka. Daðey var stærsti smábáturinn á landinu þegar hún var smíðuð, en er nú með þeim minni, sem gera út á beitningu um borð. "Þetta hefur gengið fínt hjá okkur en á þessum tíma ársins er þetta svona upp og ofan. Við vorum fyrir austan í haust og rérum þá frá Neskaupstað. Við komum svo suður fyrir síðustu mánaðamót og það byrjaði rólega hérna, en er að koma. Við höfum getað róið alla daga þrátt fyrir skíta veður. Síðustu dagana höfum við verið að róa frá Sandgerði, því þegar hann er austanstæður er gott að vera þeim megin.
Aðallínusvæðið frá Sandgerði er norðvestur úr Garðskaganum en ég hef verið að leggja línuna í Röstinni, því við erum að eltast við löngu. Það er töluvert af henni þar en veðrið hefur verið að gera okkur erfitt fyrir. Við erum á löngunni núna til að dreifa fiskiríinu og stýra þessu eitthvað. Þetta er líka sá tími ársins sem langan og reyndar keilan líka eru að gefa sig. Þorskurinn er lítið mættur hingað ennþá, en bátarnir hafa verið að fá ágætis afla af ýsu á línuslóðinni. Þeir liggja flestir í henni núna. Annars er kominn tími á að þorskurinn fari að birtast og við erum farnir að verða þokkalega varir við hann og erum að fá allt upp í tonn með löngunni.
Við erum með 13.500 króka og það er alveg hæfilegt fyrir bát af þessari stærð. Það rétt dugir dagurinn til að draga þennan fjölda. Maður veður helst að geta litið upp úr þessu og komast heim milli róðra. Það þarf líka að huga að því að fá ekki meiri afla en við getum með góðu móti komið fyrir í körum um borð.
Við höfum verið að taka svona fjögur til sex tonn núna, þegar við höfum verið að leggja okkur eftir löngunni. Þar af hefur verið um helmingur langa. Fyrir austan í þorskinum vorum við að taka svona sjö til tíu tonn í lögn. Ég hef sett um 13 tonn í bátinn en tíu tonn eru eiginlega fullfermi með tilliti til þess að fara eins vel með fiskinn og hægt er og koma öllu í kör. Þannig að þessi línulengd hefur passað okkur ágætlega. Þegar komið er á vertíð héðan frá Grindavík erum við yfirleitt með fullfermi í körum. Línulengdin og rýmið fyrir fisk um borð þarf að passa saman, en auðvitað reynir maður alltaf að fá sem mest, en ef við erum of duglegir, erum við bara stoppaðir af. Við höfum verið að beita "sára" og svolítið af smokk með. Það er sú beita sem virkar best hérna fyrir sunnan en fyrir austan höfum við verið að beita síld.
Allt annað en síld og makríll fyrir austan er eiginlega bara rugl. Þegar við vorum að róa frá Neskaupstað vorum við alltaf með ferska beitu, því þar var nánast alltaf skip að landa síld. Við prufuðum reyndar makrílinn líka til að byrja með og hann kom bara vel út, en það er meiri vinna við hann. Roðið á honum er þykkt og erfitt að hreinsa það af krókunum. Við skiptum með okkur verkum þegar við erum að draga línuna, það er einn á rúllunni og að gogga, tveir vinna línuna jafnóðum og einn blóðgar niður. Þetta gengur svo hringinn hjá okkur og með góðum mannskap er þetta bara gaman, ekkert vandamál.
Við erum með alveg þokkalegan kvóta, 312 tonn af þorski, 140 tonn af ufsa, um 40 tonn af keilu og eitthvað svipað af löngu. Við erum með ágætis blöndu og höfum verið að veiða um 800 tonn á ári síðustu þrjú árin. Til að nýta heimildir okkar sem best höfum við verið á handfærum á ufsa á sumrin. Fyrir vikið höfum við aldrei þurft að stoppa, verið á ufsanum í apríl, maí og júní og reyndar sumarfríi í júlí. Svo er farið austur á haustin og verið svo hér á vertíðinni. Við höfum mikið verið djúpt úti á Faxaflóanum og úti á Reykjaneshrygg á skakinu. Við tókum 100 tonn af ufsanum í ár en þá erum við bara tveir á með fjórar rúllur, en annars erum við fjórir á línunni. Við höfum verið að taka upp í átta tonna rek og í maí vorum við yfirleitt með sex til átta tonn. Það er mikið fjör í ufsanum, þegar hann gefur sig. Maí er yfirleitt besti tíminn í ufsanum. Þá erum við norðarlega í Faxaflóanum og löndum mest á Arnarstapa, en líka í Sandgerði. Það er gaman að breyta til í veiðiskap.
Við löndum núna á markað og gerum oftast en höfum einnig verið í föstum viðskiptum við Vísi í Grindavík. Yfirleitt er þetta svona sitt á hvað. Við erum að fá ágætis verð fyrir lönguna á markaðnum, hún virðist vera komin í stöðugt verð í um 230 til 240 krónur. Keilan er líka á góðu verði, hefur verið á um 150 til 170 krónur, en við vorum að fá um 220 krónur fyrir hana í dag. Það virðist eins og þessi fiskur, sem áður var ódýr, hafi hækkað töluvert í verði en þorskurinn standi meira í stað. Fyrir fáum árum vorum við að fá 50 krónur fyrir keiluna og 90 fyrir lönguna svo það er mikill munur á því. Þessi þróun er bara góð og þá erum við ekki eins háðir þorskverðinu. Það er líka meiri vinna að veiða keilu en þorskinn. Keilan og langan eru á mesta karganum og það tekur oft sólarhringinn að ná línunni upp. Því er gott að fá meira fyrir þetta."
Hvernig lítur svo framhaldið út? "Ég held að það verði góð vertíð núna, enda margt sem bendir til þess. Það hefur aldrei verið jafnmikið af fiski fyrir austan eins og núna. Það fór bara eftir því hve langt maður fór út, hvað mikið var að fá á línuna. Ef maður fór of langt, náði maður ekki að draga hana alla. Þá var báturinn orðinn fullur af fiski, en við vorum að fara svona 20 til 40 mílur út í kantana. Maður hefur svo séð það undanfarin ár hér við Grindavík, að þegar þorskurinn kemur almennilega er allt fullt af honum. Þessa vegna eru þessir bátar ekki að beita sér nema kannski 80%, annars fæst bara of mikið af fiski og markaðurinn ræður ekki við það," segir Júlíus Sigurðsson.
Frá epj. smá athugasemd báturinn er ekki frá Trefjum, heldur Gáskabátur frá Mótun