Hér sést togarinn Blue Wave. Skipið er í eigu íslenskra lífeyrissjóða og stundar fiskveiðar við strendur Vestur-Afríku.
Nokkrir af stærstu lífeyrissjóðum landsins eiga verksmiðjutogarann Blue Wave sem veitt hefur fisk við vesturströnd Afríku frá árinu 2007. Lífeyrissjóðirnir sem um ræðir eru Gildi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Stapi, Stafir og Sameinaði lífeyrissjóðurinn. Togarinn er því á endanum að hluta til í eigu þeirra einstaklinga - tugþúsunda Íslendinga - sem greiða af tekjum sínum í þessa lífeyrissjóði.
Aðrir eigendur togarans eru fjárfestingarbankinn Straumur, Gunnar Sæmundsson, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, sem er í eigu íslenska ríkisins, og Tryggingamiðstöðin. Eignarhaldið á togaranum er í gegnum fjárfestingasjóðinn Brú II Venture Capital Fund, sem skrásettur er í Lúxemborg, en er stýrt af Thule Investments, sjóðsstýringarfyrirtæki með aðsetur í Kringlunni.
Eignarhaldsfélagið sem á Blue Wave heitir Blue Wave Ltd. og er skráð í skattaskjólinu Jersey á Ermarsundi. Annað félag, Wave Operation Ltd., er utan um reksturinn á skipinu en það er skráð í skattaskjólinu Bresku Jómfrúaeyjum í Karíbahafinu. Þetta kemur fram í gögnum um stofnun félaganna tveggja sem send voru til ríkisskattstjóra síðla árs 2007. Stjórnarformaður þessara tveggja félaga heitir Herdís Dröfn Fjeldsted og er hún fyrrverandi starfsmaður hjá Thule Investments og núverandi starfsmaður Framtakssjóðs Íslands sem er í eigu nokkurra íslenskra lífeyrissjóða, meðal annars þeirra sem eiga í Blue Wave. Bæði eignarhaldið á togaranum, og félagið sem heldur utan um rekstur hans, er því í gegnum erlend skattaskjól

