Beggja vegna borðs. Þorsteinn Erlingsson eigandi Saltvers var einnig stjórnarformaður Reykjaneshafnar á sama tíma og meint kvótasvindl fór fram. Samsett mynd DV
Þorsteinn Erlingsson, eigandi útgerðarfyrirtækisins Saltvers, var stjórnarformaður Reykjaneshafnar á sama tíma og meint löndunarsvindl fyrirtækisins á að hafa viðgengist á höfninni. Heimildir DV herma að honum verði gert að greiða yfir 200 milljónir króna til Fiskistofu vegna meints löndunarsvindls. Fyrrverandi starfsmaður Saltvers hefur sakað fyrirtækið um gróft löndunarsvindl. Málið hefur verið til rannsóknar hjá Fiskistofu undanfarna mánuði. Þorsteinn, sem er fyrrverandi bæjarfulltrúi og stjórnarmaður í Sparisjóði Keflavíkur, hefur ekkert viljað tjá sig um málið við DV.
Fiskistofa segir ákvörðun í málinu ekki liggja fyrir. Þorsteinn Hilmarsson, starfsmaður Fiskistofu, sagði að um væri að ræða stjórnsýsluákvarðanir sem færu sínar leiðir og menn gætu í framhaldinu véfengt þær og ennþá væri ekki komin lokaniðurstaða. Hann staðfesti hvorki né neitaði því að eiganda Saltvers hefði verið gert að greiða fjársektir til stofnunarinnar, þegar DV talaði við hann í júlí. Á síðustu þremur árum hefur Fiskistofa einu sinni lagt sérstakt gjald á fyrirtæki vegna ólögmæts sjávarafla sem landað var framhjá vigt, en það hljóðaði upp á rúmar 23 milljónir.

