Systir Mark Zuckerberg, Randi Zuckerberg, markaðsstjóri Facebook, segir að nafnleysi og fölsk nöfn á samfélagssíðum verði að útrýma og vill banna einstaklingum að koma fram undir röngum nöfnum eða nafnleysi. Hún segir að fólk hagi sér mun betur undir nafni á netinu en það geri annars. Þetta sagði hún við hringborðsumræður sem fjölluðu um einelti á internetinu. Facebook krefst þess, með misjöfnum árangri, að notendur samfélagssíðunnar noti rétt nöfn og netföng þegar þeir skrá sig á síðuna.
Randi segir að með því að banna nafnleysi sé hægt að koma í veg fyrir árásir á einstaklinga í skjóli nafnleysis og einelti á netinu. Hún telur að það sé nauðsynlegt að krefjast þess að einstaklingar komi fram undir nafni.
"Fólk hagar sér betur undir nafni en það gerir nafnlaust. Ég held að fólk feli sig á bak við nafnleysið eins og lokaðar dyr og haldi að það geti sagt hvað sem er," segir Randi. Hún var sammála Eric Schmidt framkvæmdastjóra Google sem segir að netið sé hættulegt á nafnlausum forsendum.
"Fólk hagar sér betur undir nafni en það gerir nafnlaust"

