"Við höfum alltaf fengið höfðinglegar móttökur. Þetta var þeirra gestrisni sem kom svona í bakið á þeim," segir Sigurður, skipstjóri Áróru.
"Það er alveg hræðilegt að svona góður vinargreiði hafi endað svona," segir Sigurður Jónsson, skipstjóri á skútunni Áróru. Tveir skipverjar á hvalaskoðunarbátnum Knerrinum slösuðust í nótt þegar þeir reyndu að aðstoða skútuna við að komast til hafnar á Húsavík.
Einn skipverji á Knerrinum féll útbyrðis og annar fótbrotnaði illa þegar verið var að losa kaðal sem festur hafði verið milli bátanna. Mjög hvasst var á svæðinu þegar hjálparbeiðnin frá Áróru barst.
"Það var svo hvasst hérna úti á firðinum að það gekk ekki neitt að komast áfram. Það hefði líklega tekið okkur einn og hálfan dag bara að komast til hafnar," segir Sigurður þegar hann er beðinn um að lýsa aðstæðum.
"Þetta eru ágætis kunningjar okkar, hvalaskoðunarmennirnir hérna, og það varð niðurstaðan að þeir myndu skjótast út og draga okkur í land," segir Sigurður og bætir við að þeir hafi ætlað að sigla með til að flýta fyrir. Allt hafi gengið eins og í sögu til að byrja með en þegar komið var í hafnarmynnið hafi ógæfan dunið yfir.
"Við vorum komnir á góðum tíma inn á Húsavík. Svo þegar við erum að losa spottann á milli bátanna þá fáum við spottann í skrúfuna. Þegar það gerist kemur slinkur á spottann og þeir lenda í vandræðum um borð hjá sér líka," segir Sigurður.
Þegar þetta gerðist festi einn skipverjinn á Knerrinum annan fótinn í lykkjunni og fótbrotnaði þegar strekktist á henni. Á sama tíma féll annar skipverji útbyrðis. Hann ofkældist en Sigurður segir að það hafi tekið skamma stund að ná honum um borð aftur. Þeir voru báðir fluttir á fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. "Ég hef ekkert heyrt meira af þeim en ég ætla að hitta þá á eftir."
Svo fór að áhöfn Knarrarins tókst að festa lykkjuna aftur við Áróru og draga hana til hafnar. Sigurður segist miður sín yfir því hvernig fór enda hafi skútan margoft komið til Húsavíkur og fengið góðar móttökur. "Við höfum alltaf fengið höfðinglegar móttökur. Þetta var þeirra gestrisni sem kom svona í bakið á þeim. Slysin gera ekki boð á undan sér," segir hann en Áróra var að koma til Húsavíkur frá Jan Mayen.




















































