bb.is:
Sirrý ÍS var aflahæsti smábáturinn yfir 10 brúttótonn á landinu árið 2010. |
Bolvísku smábátarnir vöktu athygli árinu sem var að líða fyrir góð aflabrögð og þá sér í lagi krókaaflamarksbátarnir sem eru yfir 10 brúttótonn. Fjórir bátar hafa trónað í efstu sætum yfir aflahæstu bátana allt síðasta ár og nam aflinn á árinu nær 6.000 tonnum. Þetta eru bátarnir Guðmundur Einarsson ÍS og Sirrý ÍS, sem fyrirtækið Jakob Valgeir ehf., gerir út, Hrólfur Einarsson, sem Völusteinn gerir út, og Einar Hálfdáns ÍS sem Blakknes ehf. gerir út. Aflabrögð voru mjög góð árið 2010; í janúar í fyrra slógu bæði Guðmundur Einarsson og Sirrý aflamet, en afli Sirrýar var þá 220 tonn í mánuðinum. Guðmundur Einarsson byrjaði líka árið vel, en í fyrsta róðri ársins kom hann með 12 tonn að landi og var meðalvigt þorsksins 7,3 kíló, sem er fáheyrt.
Að sögn Guðbjartar Flosasonar, framleiðslustjóra hjá Jakobi Valgeiri, má gera ráð fyrir að aflaverðmæti bátanna sé um 1.400 milljónir króna. Þess má geta að stærsti fyrstitogari Vestfirðinga, Júlíus Geirmundsson, sló á síðasta ári met í aflaverðmæti en þá landaði togarinn afla að verðmæti 1.323 milljónir króna. Fer því nærri að um sama aflaverðmæti sé um að ræða hjá frystitogaranum annars vegar og hins vegar krókabátunum fjórum. Hásetahluturinn árið 2010 var í kringum 30 milljónir á bátum í eigu Jakobs Valgeirs, að sögn Guðbjartar.
"Hjá hvorum bát um sig starfa um 10-12 manns þegar beitingamenn í landi eru taldir með. Hjá öllum bátunum starfa því um 50 manns. Auk þess starfa hjá okkur 40 manns í fiskvinnslunni sem reiðir sig mikið á hráefni frá þessum bátum. Á hverjum bát eru þrír menn og er róið þannig að tveir eru á sjó og einn í landi en með þessu fyrirkomulagi geta bátarnir róið gott sem sleitulaust þegar veður leyfir," segir Guðbjartur.
Afli bátanna árið 2010 var sem hér segir.
Sirrý ÍS 1.687 tonn
Guðmundur Einarsson ÍS 1.644 tonn
Hrólfur Einarsson ÍS 1.294 tonn
Einar Hálfdánsson ÍS 1.263 tonn