Færslur: 2011 Janúar

01.01.2011 16:00

Allur afli grásleppubáta að landi

Af Feykir.is:

tn_DSC03733

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skrifaði í dag undir reglugerð sem skyldar grásleppusjómenn til að koma með allan afla að landi. Breyting þessi er unnin í samvinnu við Landsamband smábátaeigenda og er meðal annars tengd árangri sem náðst hefur í markaðsstarfi með hrognkelsahvelju til matvæla og annarar framleiðslu.

Grásleppa er sem kunnugt er veidd vegna hrogna en afar lítil nýting hefur verið á öðrum hlutum fisksins sem er kallaður hvelja en inniheldur í raun haus, hvelju, innyfli og vöðva. Í reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða frá 2003 er heimilt að varpa fyrir borð verðlausum fiski og þeim aukaafurðum sem ekki verða nýtt með arðbærum hætti. Frá því eru þó þær undantekningar að alltaf skal koma með þorsk- og ufsahrogn að landi og sömuleiðis allan afskurð sem fellur til við snyrtingu á þorsk- ufsa- og ýsuflökum. Með reglugerð þeirri sem skrifað er undir í dag bætist við í þá upptalningu yfir það sem alltaf skal koma að landi, svohljóðandi setning:

"Ennfremur skal við hrognkelsaveiðar koma með öll hrognkelsi að landi."

Breytingin tekur gildi 1. janúar 2012 og þannig gefst ein grásleppuvertíð til aðlögunar. Innan við 10% af grásleppuafla berst nú þegar að landi í tengslum við það markaðsstarf sem þegar er í gangi. Þess eru dæmi að einstakar útgerðir hafi greitt olíukostnað við veiðarnar með aflaverðmæti hveljunnar. Grásleppusjómanna bíður nú mikið verkefni að gera yfir 4000 tonn af fiski sem áður var hent að markaðsvöru. Jón Bjarnason sagðist við undirritun reglugerðarinnar hafa fulla trú á að það tækist. Hér væri um að ræða mikilvægt skref í siðlegri og bættri umgengni þjóðarinnar um auðlind hafsins.

Fyrirtækið Tríton sem starfar bæði í Reykjavík og á Akranesi hefur undanfarin tvö ár flutt grásleppu út til Kína þar sem hún er seld til betri veitingahúsa og elduð ýmist með eða án hveljunni. Þá hefur sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd unnið með fleiri aðilum að nýtingu á grásleppuhvelju til kollagen framleiðslu sem nýtist meðal annars í öldrunarmeðöl og lækningar. Skilaverð Kínamarkaðarins til sjómanna hefur verið um 60 krónur á kílóið sem gæti ef markaðir aukast skilað allt að 300 milljónum fyrir 5000 tonna ársafla. Markaðsstarf vegna grásleppu hefur verið stutt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.

Myndin er frá undirritun reglugerðar sem skyldar grásleppusjómenn til að koma með allan afla að landi. Auk ráðherra eru á myndinni f.v. talið Sveinn Margeirsson frá Matís, Jóhann Guðmundsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir aðstoðarmaður ráðherra, Örn Pálsson og Arthur Bogason báðir frá Landssambandi smábátaeigenda og Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytisstjóri. Á myndina vantar Baldur P. Erlingsson lögfræðing í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.


01.01.2011 15:19

Þekking og skráning gera smábátaaflann að fyrsta flokks hráefni

feykir.is:

Þekking og skráning gera smábátaaflann að fyrsta flokks hráefni

batar

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veitti í gær viðtöku skýrslu Matís um hámörkun aflaverðmætis smábáta. Verkefnið er stutt er af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi. Auk skýrslunnar hefur starfshópur verkefnisins gefið út bækling og einblöðunga sem dreift hefur verið til allra smábátasjómanna. Þá er lagt til að verkefninu verði enn fremur fylgt eftir með námskeiðshaldi.

"Þessi vinna nú er mikilvægur liður í þeirri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að auka verðmæti sjávarafurða og til þess fallin að skapa um leið fleiri afleidd og arðbær störf í greininni," sagði Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við þetta tækifæri.

Afli smábáta hefur burði til að vera besta hráefni sem völ er á, þar sem varla er hægt að hugsa sér ferskari fisk en afla dagróðrabáta sem veiða á línu eða handfæri.  Röng meðhöndlun getur hins vegar haft þau áhrif að ekki er unnt að vinna aflann í verðmætustu afurðirnar.  Oft á tíðum þarf þó tiltölulega litlar breytingar á vinnubrögðum til að tryggja að afli smábáta standi undir merkjum sem fiskur af hámarks gæðum.

Í tillögum skýrsluhöfunda er horft til þriggja þátta.

Í fyrsta lagi til aukinnar þekkingar allra aðila í virðiskeðju smábátafisks. Á sl. ári voru veiðar stundaðar á rúmlega eitt þúsund smábátum við Ísland og þarf engan að undra að þekking og vinnubrögð á þeim séu breytileg. Auk þess sem þegar hefur verið gert með fyrrnefndri bæklingaútgáfu, blaðaskrifum og erindum á fundum telja skýrsluhöfundar að námskeiðshald meðal smábátasjómanna og annarra sem að málinu koma skili bestum árangri. Stungið er upp á námskeiðum á völdum stöðum víðsvegar um landið og er æskilegt að auk Matís, komi að því verkefni Landssamband smábátaeigenda, Matvælastofnun, Fiskistofa og Reiknistofa fiskmarkaða.

Í öðru lagi þarf að horfa til tæknilegrar útfærslu um borð í smábátum. Plássleysi um borð getur að nokkru leyti staðið í vegi fyrir bestu mögulegu aflameðferð en úr því er hægt að bæta. Mikilvægt er að um borð sé fullkomin aðstaða til blóðgunar með sírennsli af hreinum sjó. Þá er áhersla lögð á kælingu og að aflinn verði ekki fyrir óþarfa hnjaski, hvort sem er við geymslu eða löndun. 

Í þriðja lagi benda skýrsluhöfundar á mikilvægi þess að sjómenn sem vanda frágang njóti þess í formi hærra verðs á markaði.  Í því sambandi er bent á mikilvægi hitastigsmælinga við löndun, stærðarflokkunar og frágangs. Jafnframt þarf að tryggja sem best rekjanleika og upplýsingagjöf með öllum afla.

Tillögur þessar eru í samræmi við það sem fram kemur í skýrslu starfshóps á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis um bætta nýtingu bolfisks þar sem fjallað er sérstaklega um nýtingu ísfiskafla. Vinnuhópur er nú að störfum sem hefur það hlutverk að fylgja þeim tillögum enn frekar eftir.


01.01.2011 14:06

Mariane Danielsen, Oddur V. Gíslason o.fl. á nýrri heimasíðu björgunarsveitarinnar Þorbjörns

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hefur opnað nýja heimasíðu www.thorbjorn.is og hana prýða m.a. þessar fjórar myndir sem ég birti hér


                               Maríane Danielsen á strandstað við Grindavík, 1989


                                                     Oddur V. Gíslason


                                       Oddur V. Gíslason við Eldey


                           Á æfingu  © myndir af heimasíðunni www.thorbjorn.is

01.01.2011 13:05

Vestmannaeyjar


                           Vestmannaeyjar © mynd af visi.is

01.01.2011 12:00

Öðruvísi myndir

Já þetta eru svo sannarlega öðruvísi myndir sem komu úr filmumyndavélinni hjá honum Bjarna Guðmundssyni í Neskaupstað og hann sýnir okkur nú. Í raunar tók hann þarna myndir ofan í aðrar myndir. Fyrst tók hann myndir af Þjóðhátíðinni í Eyjum 1993 og síðan skömmu síðar, án þess að muna það, tók hann aðrar ofan í þær myndir og þá komu þessar óvenjulegu og um leið öðruvísi, en þó ansi skemmtilegu myndir.


       6951. Inga NK 11, í Skálabás í Sandvík fyrir austan og flugeldasýningin á Þjóðhátíðinni í Eyjum 1993


                   Flakið af Gesina í Sandvík og flugeldasýning á Þjóðhátíðinni


                              Jökulsárlón og brennan á Þjóðhátíðinni


                                    Jökulsárlón og brennan á Þjóðhátíðinni


                                Jökulsárlón og brennan á Þjóðhátíðinni, í Eyjum
                                            © myndir Bjarni G.,  1993

01.01.2011 11:11

1.1.11. kl. 11.11

Smá svona grín, það var óvenjuleg tímasetning núna þegar þetta er skrifað kl. 11.11. þann. 1.1. árið  (2o)11, eða með öðrum orðum 1.1.11. kl 11.11