Loðnugangan, sem veitt hefur verið úr undanfarnar vikur, er nú komin inn á Breiðafjörð og í nótt voru skipin að veiðum um átta mílur norður af Öndverðarnesi. Lundey NS fékk um 1.100 tonna afla í þremur köstum í nótt og er rætt var við Stefán Geir Jónsson, fyrsta stýrimann og afleysingaskipstjóra, átti Lundey eftir um klukkutíma siglingu til Akraness.
,,Loðnan hefur gengið hratt norður eftir og er nú komin inn í Breiðafjörðinn. Við erum búnir að elta þessa göngu og aflinn hefur verið mjög góður og reyndar merkilega góður í ljósi þess hvernig tíðarfarið hefur verið. Það hafa verið ríkjandi vestan og suðvestanáttir og stöðugar brælur og það var ekki fyrr en í nótt að við fengum loksins almennilegt veður, koppalogn og ládauðan sjó," segir Stefán Geir á heimasíðu HB Granda.
Að hans sögn eru menn nú að stunda veiðarnar í verri veðrum en oft áður. Það helgast öðrum þræði af því að mikil verðmæti eru í húfi og ekki megi heldur gleyma því að veiðarfærin séu orðin mun betri en þau voru fyrir nokkrum árum og því megi bjóða þeim upp á meiri átök.
Loðnan, sem nú veiðist norðan við Öndverðarnes, á ekki langt eftir í hrygningu og Stefán Geir segir að hrognafyllingin sé örugglega um 26-27%.
,,
Það eru örugglega einhverjar torfur af loðnu sem eiga eftir að skila sér. Nú er okkar helsta vandamál að það er spáð skítabrælu næstu þrjá sólarhringana. Það mun örugglega koma niður á veiðunum en maður verður bara að vona það besta," segir Stefán Geir Jónsson.





Guðni Ölversson Skemmtileg mynd, En verð að viðurkenna að ég þekki ekki eitt einasta prik í höfninni.
Emil Páll Jónsson Ok félagar ég skal nú upplýsa það sem ég veit: Þessi sem er fremstur heitir þarna 955. Óli Bjarna KE 37, nú varðveittur á Fáskrúðsfirði sem Rex NS 3, Í röðinni sem við sjáum fyrst er 311. Baldur KE 97 nú varðveittur í Keflavík, innan við hann er 1065. Glaður KE 67 sem hét Glaður ÍS 28 er hann strandaði skammt frá Flatey á Breiðafirði og sökk. Við hlið Glaðs er 821. Sæborg KE 177 sem Fórst er báturinn hét Sæborg SH 377 út af Rifi á Snæfellsnesi og þar við bryggjuna er 82. Hamravík KE 75 sem seld var úr landi. Utastur í hinni röðinni er 784. Stafnes KE 38 sem brann og sökk í Húnaflóadýpi er báturinn bar nafnið Litlanes ÍS 608. Við bryggjuna þar liggur 971. Boði KE 132, sem í dag er Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 25, aðra þekki ég ekki án þess að skoða nánar
Guðni Ölversson Ég hefði náttúrulega átt að þekkja Hamravíkina. Sú var alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér á síldarárunum