Japanski togarinn er orðinn illa farinn eftir rúmlega eins árs volk á Kyrrahafi. Mynd: kanadíska strandgæslan.

Togari sem hvarf í jarðskjálftanum mikla og flóðbylgjunni í Japan í mars í fyrra er fundinn undan strönd Bresku Kólumbíu í Kanada. Báturinn er 15 metrar að lengd.

 Kanadískir strandgæslumenn sáu hann í eftirlitsflugi í gær. Hann hefur verið á reki frá 11. mars í fyrra og er orðinn ryðgaður eftir að hafa rekið yfir Kyrrahaf í illu veðri jafnt sem góðu. Hægt var að greina skráningarnúmer togarans og hafa þannig uppi á eigandanum. Hann greindi strandgæslumönnum frá því að báturinn hefði einkum verið notaður við smokkfiskveiðar. Hann hafi horfið frá Hokkaido eyju þegar flóðbylgjan reið yfir í kjölfar jarðskjálftans. Ekkert bendir til þess að mengun stafi af bátnum sem stendur. Yfirvöld í Kanada vilja að hann verði fjarlægður þar sem sæfarendum kunni að stafa hætta af honum. Ekki liggur ljóst fyrir hvort hann verði dreginn til hafnar eða honum sökkt.