„Við erum að styrkja okkur enn frekar en áður í bolfiskveiðum og vinnslu og erum taka inn möguleika á línuveiðum, en fiskur veiddur á línu er af miklum gæðum og eftirsóttur á mörkum. Við erum nú komnir með um 6.500 tonna kvóta í bolfiski, þar af eru um 4.200 tonn þorskur. Á síðustu fimm árum höfum við styrkt stöðu okkar í bolfiskinum um 2.300 tonn af þorski. Við erum búnir að tvöfalda rúmlega veiðiheimildirnar í þorski þessum tíma,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, í samtali við kvotinn.is
Dótturfyrirtæki Loðnuvinnslunnar, Hjálmar hf. hefur keypt línubeitningarbátinn Óla á Stað frá Grindavík. Hjálmar er fyrirtæki sem Loðnuvinnslan keypti frá Grundarfirði, þegar Haukabergið var keypt þaðan síðastliðið sumar. Óla á Stað fylgja heimildir sem nema 1.163 tonn af botnfiski, uppistaðan þorskur. Báturinn er um ársgamall og er í flokki stærstu bátanna í krókakerfinu.
„Við látum svo frá okkur upp í kaupin 200 tonn í stóra kerfinu“, segir Friðrik Mar en hann vill ekki gefa upp kaupverðið.
„Báturinn mun bera nafnið Sandfell eftir fallegu fjalli hérna sunnanmegin í firðinum, sem er gömul eldstöð. Þá verðum við framvegis með Sandfellið á línu og Ljósafellið á trolli, en Haukabergið var selt vestur á Patreksfjörð.“
Starfsemi Loðnuvinnslunnar byggist að öðru leyti á uppsjávarfiski og gerir fyrirtækið út uppsjávarveiðiskipið Hoffell og kaupir töluvert af afla færeyskum og norskum skipum. „Með því að auka umsvifin í bolfiski minnkum við sveiflurnar í rekstrinum og stöndum sterkari eftir það,“ segir Friðrik Mar.
Myndina við bátinn Sandfell tók Óðinn Magnússon en á henni eru skipstjórinn Rafn Arnarson, Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri og Kjartan Reynisson útgerðarstjóri. Myndina af fjallinu Sandfelli tók Jónína Óskarsdóttir.


























