Þyrla Landhelgisgæslunnar var send af stað rétt eftir hádegi í gær með reykkafara. Skipverjum tókst að loka vélarrúminu og setja slökkvikerfi í gang. Um klukkan eitt töldu þeir að þeim hefði tekist að ráða niðurlögum eldsins. Reykkafarinn, sem kominn var á staðinn, aðstoðaði við reyklosun. Skipið var dregið til hafnar á Siglufirði og kom þangað rétt eftir miðnætti.
Í samtali við fréttastofu í morgun sagði skipstjórinn á Sóley, Benóný Guðjónsson, að svo virðist sem áhöfnin hafi bjargað því sem bjargað varð. Aðalvél skipsins hafi ekki orðið fyrir miklum skemmdum, mest hafi tjónið orðið á rafmagnsköplum svo að ekki var hægt að gangsetja vélina. Nú verði ráðist í bráðabirgðaviðgerðir, áður en skipinu verður siglt í heimahöfn í Sandgerði. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skipið verður fyrir óhappi. Árið 2009 sigldi það í strand í innsiglingunni við Sandgerði og árið 2012 þurfti áhöfnin að yfirgefa skipið í skyndi eftir að það fékk virka djúpsprengju í veiðarfærin.
























