29.11.2019 07:00
Lágey strönduð á Þistilsfirði
|
2651. LÁGEY ÞH 265 Í Sandgerði © mynd Emil PÁLL, 16. mars 2019 |
Björgunarsveitir frá Raufarhöfn og Þórshöfn hafa verið kallaðar út vegna báts sem er strandaður í Þistilfirði. Að sögn lögreglunnar á Norðurlandi eystra amar ekkert að áhöfn bátsins og hún ekki talin í neinni hættu.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni hafði áhöfn línubátsins Lágey ÞH-265 samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan 4:30 í nótt á fjarskiptarásinni VHF-16 og tilkynnti að bátinn hefði rekið í strand í vestanverðum Þistilfirði, um miðja vegu á milli Þórshafnar og Raufarhafnar.
Lágey er 15 tonna og 13 metra langur yfirbyggður trefjaplastbátur. Fjórir eru í áhöfn og fer vel um þá miðað við aðstæður. Veður er tiltölulega gott á strandstað, lögn og gott skyggni en svolítil hafalda.
Að sögn skipstjóra kæmust þeir í land á fjöru en vegna myrkurs sjá þeir ekki neitt frá sér. Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kölluðu þegar út áhöfn þyrlunnar TF-EIR og er áætlað að hún verði á strandstað um kl. 06:55. - Mbl.is

