13.06.2016 06:12
Strandveiðum í Júní á A-svæði lýkur í dag
mbl.is:
Strandveiðum í júní á svonefndu A-svæði, sem nær frá sunnanverðu Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps, lýkur eftir daginn í dag. Þetta er samkvæmt reglugerð sem Fiskistofa gaf út síðastliðinn föstudag.
Að morgni þess dags höfðu smábátamenn á A-svæðinu veitt alls 810 tonn, en kvótapotturinn fyrir þessi mið í mánuðinum er alls 1.023 tonn.
„Veiðarnar á þessu svæði hafa gengið mjög vel að undanförnu. Bátarnir eru fleiri og aflinn í hverri einustu ferð talsvert meiri en verið hefur á fyrri árum,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Að undanförnu hafa 603 bátar verið á strandveiðum á miðunum við landið, þar af 226 á A-svæðinu.
