31.01.2014 19:49

18 norsk skip í vari á Seyðisfirði

ruv.is:

Nokkur norsku loðnuskipanna á Seyðisfirði. Mynd RUV.

Höfnin á Seyðisfirði er fullpökkuð af norskum loðnuskipum sem bíða af sér brælu í von um að loðna finnist. Hafnarvörður segir þetta minna á síldarárin þegar hundrað norsk skip lágu þar við bryggju.

Þegar horft er niður til Seyðisfjarðar er eitthvað öðruvísi en það á að vera. Stór norsk loðnuskip hafa undanfarna daga týnst inn í höfnina og bráðum  verða þau 18 talsins. Skipin eru bundin tvö og tvö saman og hafnarstjórinn er farinn að bægja skipum frá; er þegar búinn að vísa einu til Fáskrúðsfjarðar. 

„Þeir eru búnir að vera hér einir sjö alveg síðan á síðasta föstudag fyrir viku. Þeir eru bara að liggja af sér veður og bíða eftir að það finnist loðna. Gáfust upp við að leita út af veðri en fara væntanlega út um leið og lægir aftur“, segir Jóhann Hansson, hafnarvörður á Seyðisfirði. 

Hann segir þessa sjón minna á myndirnar sem teknar voru 1962 þegar norskir síldarbátar fylltu höfnina allt upp í hundrað talsins í fylgd norska sjóhersins. Núna eru um 10 í áhöfn hvers skips og því hátt í 200 norskir sjómenn í staðnum. Þeir eru þó lítt sýnilegir enda vart hundi út sigandi.

„Þeir eru sjálfsagt mest um borð og á labbi hér um bæinn að versla og stússast. Fara kannski á pöbbinn þegar kemur fram á kvöld. Þeir hafa sagt að þeir reikni með að komast út á sunnudaginn. Svona þegar veðrið fer að lægja en það verður bara tíminn að leiða í ljós", segir Jóhann.