31.12.2012 16:00

Árið er liðið.....

Þá er komið að því, sem margir bíða spenntir eftir, en það er annállinn sem ég hef gert á gamlársdag nú í nokkur ár. Annáll þessi er raunar uppgjörið mitt fyrir árið sem er að líða og eins ef hægt er segi ég frá því sem ég vonast til að gerist á komandi ári.

Áður en ég fer þó lengra, vil ég nota þetta tækifæri til að óska öllum þeim sem hafa unnið með mér eða aðstoðað á einn eða annan veg varðandi síðuna GLEÐILEGS ÁRS  og þakka fórnfúst starf á árinu sem er að líða. Hér eru um að ræða fjölmennan hóp ljósmyndara og nánast fréttaritar út um land og eins í nágrenninu við mig. Þessi fjölmenni hópur á miklar þakkir skyldar, sem ég færi þeim nú, því án þessa hóps hefði mér ekki tekist að gera svona fjölbreytta og vinsæla síðu og staðreyndir sýna, svart á hvítu. Þá hefur vaxið sá hópur sem vill fá að auglýsa á síðunni eða veita mér styrki í einni eða annarri mynd, en formið á núverandi síðu gefur ekki mikla möguleika.

Þó púkinn í mér hafi oft skemmt sér vel á árinu sem er að líða, vegna framkomu annarra síðueigenda þó aðallega tveggja, ætla ég ekki að eyða í þá púðri hér. Ástæðan er reynsla mín frá því að ég var með vinsælan gagnrýnisþátt í Víkurfréttum og síðari fjölmiðlum sem hétu MOLAR. Þar kom það oft í ljós að ættingjar þeirra sem fengu skotin, áttu erfiðara með að þola þau, en þeir sem voru teknir í gegn, því SANNLEIKANUM ER HVER SÁR REIÐASTUR og mun ég jafnframt viðhafa þann málshátt sem segir að SÁ VÆGIR SEM VITIÐ HEFUR MEIRA. Málið er að ég hef nánast ekkert farið inn á aðrar síður allt þetta ár, heldur hafa ýmsir fylgismenn mínir flutt mér fréttir af því sem þar er sagt um mig. Ég ætla því ekki að skemmta skrattanum með miklum lýsingaorðum um þá einstaklinga sem sérstaklega unnu til þess á árinu, þó mér finnist ef rétt er eftir sumum haft að þeir hagi sér frekar eins og smábörn en fullorðnir menn, með því að vera að væla um mig á víxl og því er ekki annað hægt en að vorkenna þeim litlu skinnunum, sem ná ekki að þroskast eðlilega á þessu sviði.

 

 FRAMTÍÐIN

Í haust stóð til að ég opnaði aðra síðu, en sökum heilsuástands hefur orðið dráttur á því. Engu að síður hef ég fengið mikla hvatningu frá ýmsum sem vita hvað ég ætla mér í þeim efnum og hafa margir reynt að stappa í mig stálinu að drífa mig áfram þrátt fyrir veikindin og opna viðkomandi síðu. Sem dæmi þar um þá hafa komið tillögur að nýju nafni á síðuna, nafni sem mun valda óróa hjá öðrum ef af verður. En allt kemur þetta í ljós ef heilsan mín lagast og ég get tekið þátt í þeim mikla undirbúningi sem ýmsir aðilar hliðhollir mér hafa unnið að undanfarið, til að gera þetta mögulegt.

 

Að endingu sendi ég öllum lesendum síðunnar bestu áramótakveðjur, með þökkum fyrir innlitið og samstafið.

 Það er því ljóst að þetta er síðasta færslan á þessu ári og næsta færsla verður einhvern tímann á næsta ári, (trúlega um eða upp úr hádeginu á morgun)

 

                       Með bestu áramótakveðjum   Emil Páll

 

Af Facebook:

Þorgrímur Ómar Tavsen Ég óska þér gleðilegs nýs árs og þakka allt gamalt.

 
Dorothy Lillian Ellison Gleðilegt ár og þakka öll góðu árin.
 
Sigurbrandur Jakobsson Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir fyrir að fá að vera í þessum góða hópi ljósmyndara við síðuna á árinu sem er að líða. Við látum ekki öfund og illkvittni hafa áhrif á okkur á nýju ári