31.07.2012 18:30

Viðgerðum á áttræðri trillu að ljúka

bb.is:


                                      Jóhanna ÍS er mikið augnayndi  © mynd bb.is


Viðgerðum á bátnum Jóhönnu ÍS er að ljúka en þær hafa staðið yfir frá árinu 2007 með hléum. Að sögn Jóns Sigurpálsson forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða er stefnt að því að uppbyggingu bátsins verði lokið að fullu í næsta mánuði. "Þetta er safngripur sem mun njóta sín í höfninni og vera augnayndi í legufæri," segir hann aðspurður um hvað verði um gripinn að viðgerðum loknum. Magnús Alfreðsson smiður á Ísafirði hefur haft veg og vanda að viðgerðunum en eins og Jón bendir á er skipið óneitanlega mjög fagur gripur.

Jóhanna var smíðuð árið 1929, í Bolungarvík, af Fal Jakobssyni, bátasmið frá Kvíum, fyrir (Einar) Ágúst Einarsson frá Dynjanda, og hefur hún alltaf verið kennd við þann stað. Hún er talin vera samkvæmt mælibréfi, 2.72 rúmlestir og lengd hennar stafna á milli, eins og fram kemur á s.st., 24 fet, eða rúmir 7 metrar. Jóhanna er smíðuð úr eik og furu. Gunnlaugur Á. Finnbogason, síðasti eigandi Jóhönnu, afhenti Byggðasafni Vestfjarða hana til varðveislu árið 1991.

Á vef Byggðasafnsins segir m.a. um bátinn: "Jóhanna er gott dæmi um trillu af minni gerðinni fyrir aðstæður í Ísafjarðardjúpi. "Falsbátarnir" þóttu afbragðs sjóskip og einstaklega fallegir. Þeir voru léttbyggðir en verulega styrktir í smíðinni með mun þéttari, en grennri böndum, en almennt tíðkaðist. Lögun og gerð bátanna miðaðist við að hægt væri að taka þá á þurrt eftir hvern róður, var þetta nauðsynlegt þar sem hafnleysur voru. Burðarmagn þeirra var furðumikið og var eftir því tekið. "Þessir léttbyggðu og botnmiklu súgbyrðingar skoppuðu ofan á, á hverju sem gekk", segir í Einars sögu Guðfinnssonar í Bolungarvík. Gunnlaugur Finnbogason útgerðarmaður á Ísafirði færði safninu bátinn að gjöf."