20.09.2010 21:10

Hafa vetursetu á Ísafirði

Af bb.is:

Þrjár aðkomuskútur eru komnar til Ísafjarðar til vetursetu. "Það er ánægjulegt fyrir samfélagið að það sé að eflast sú vitneskja að Ísafjörður sé góður viðkomustaður bæði til þess að sigla um svæðið og eins til að hafa vetursetu," segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri hafna Ísafjarðarbæjar. Eigendurnir hafa fengið heimamenn til að sinna skútunum en eins og greint hefur verið frá setti Ísafjarðarhöfn niður legufæri á Pollinum ífyrir ísfirska skútueigendur í sumar til að rýma til fyrir gestum. Guðmundur segir að hér sé ekki um að ræða meðvitaða markaðssetningu á Ísafirði sem siglingamiðstöð. "Við höfum ekki talið rétt að fara út í markaðsátak á meðan aðstaðan er ekki fullkomin en það er í framtíðarplönum að gera hér betri aðstöðu og þegar það er orðið fast í hendi munum við snúa okkur að slíkri markaðssetningu."

Hann segir aðstandendur sjósports á Ísafirði vera mjög áhugasama um að bæta aðstöðuna. "Við erum stöðugt með það bak við eyrun og vinnum að því smátt og smátt." Tvær aðkomuskútanna sem eru nú við Ísafjarðarhöfn eru erlendar og ein er íslensk. Guðmundur segir þetta ekki vera í fyrsta sinn sem aðkomuskútur hafi vetursetu á Ísafirði þar sem hjón höfðu vetursetu í skútu sinni fyrir nokkrum árum. Í þetta sinn eru skúturnar þó mannlausar.