23.12.2009 21:25

Endurbygging skipalyftunnar í Eyjum hafin

Af vefnum eyjafrettir.is

Miðvikudaginn 23. desember kl. 10.35
Hætt við leið 2 og farið í leið 3 við endurbyggingu skipalyftunnar:

Þyngdardreifing nýrri skipa öðruvísi

- breytingin felst í því að spil eru færð til svo taka megi upp hin nýju skip Eyjaflotans

Þyngdardreifing nýrri skipa öðruvísi
Endurbygging upptökumann­virkja við Vestmannaeyjahöfn er nú hafin en stórvirkar vinnuvélar byrjuðu að hreinsa upp gömlu  lyftuna í vikunni.  Ákveðið hafði verið að fara svokallaða leið 2 í endurbygging­unni en á dögunum var horfið frá því og ákveðið að fara leið 3 þar sem í ljós kom að leið 2 var ekki fullnægjandi miðað við þær kröfur sem voru gerðar.

Ólafur Þór Snorrason, fram­kvæmda­­stjóri umhverfis- og fram­kvæmdasviðs sagði að þyngdar­dreifing skipanna hafi valdið því að breytt var um áherslur í enduruppbyggingunni.  "Helsta vandamálið við upptöku á nýrri skipum er ­þyngdardreifing skipanna en mest af búnaði þeirra, svo sem vélar og togspil eru aftast í skipunum á meðan lítið annað en fiskilestin og mannaíbúðir eru fremst í þeim.  Lagt var upp með að upptöku­mannvirkin gætu lyft skipum á borð við Bergey og Smáey.  Í þeim skipum er þyngdar­dreifing mjög misjöfn og t.d. er mesta þyngd á Smáey u.þ.b. 38 tonn pr. metra en minnsta þyngd um 8 tonn pr. metra.  Í leið 2, sem fyrst var samþykkt, hafði afl spilanna, sem notuð eru til að lyfta pallinum, verið aukið um 25% þannig að það jókst úr 183 tonn­um í 230 tonn sem gaf lyftigetu upp á 30 tonn pr. m.  Það var nægj­anlegt til að lyfta flestum þessara skipa ef þyngdar­dreifingin er í lagi.  
 
Aftur á móti reyndist dreifingin heldur verri en fyrri athuganir höfðu sýnt og þegar búið var að reikna nákvæmlega út dreifinguna í þessum ákveðnu skipum var ákveðið að skoða leið 3."
 
Ólafur segir að leið 3 gangi út á að færa syðstu spilin á milli nyrstu paranna tveggja þannig að á milli lyftuvíra verða 6,5 metrar í stað 13, eins og gert var ráð fyrir í leið 2.  "Með því næst lyftigeta upp á 49 tonn pr. metra á nyrstu 15 metrunum.  Lyftigetan er síðan 23 tonn pr. metra á syðri 30 metrunum.  Með þessu móti er hægt að lyfta flestum skipum í Vestmannaeyjum sem eru styttri en 45 metrar og mjórri en 12 metrar en það eru þau stærðarmörk sem lyftipallurinn setur.  Kostnaðaraukning milli leiðar 2 og 3 er 70 milljónir og liggur mesti kostnaðurinn í því að gera vasa í stálþilið og smíða nýjar undirstöður undir spilparið sem verður fært.  
 
Gamla lyftupallinum hefur nú verið lyft upp á þurrt og búið er að taka spilin af undirstöðum.  Næsta skref er að hanna og bjóða út breytinguna á stálþilinu, undir­stöðum og yfirfara spilin.  "Jafn­framt verður farið í að meta ná­kvæmlega skemmdir á lyftupalli og laga það sem þarfnast lagfæringar.  Settur verður nýr stjórnbúnaður við öll spil ásamt nýrri álagsstýringu.  Allt eru þetta verk sem taka langan tíma og reiknað er með að verkinu í heild verði lokið eftir u.þ.b. eitt ár.  
 
Vestmannaeyjahöfn getur því aftur eftir 4 ára hlé boðið upp á þá þjón­ustu að hér sé hægt að taka upp skip til viðgerða og viðhalds en höfnin er lífæð Vestmannaeyja og nauðsynlegt að hér sé boðið upp á þá  þjónustu sem flotinn á skilið," sagði Ólafur að lokum.