Björgunarsveitarmenn á gúmmítuðrum ýttu við bátnum um leið og spilið togaði. Allt gekk þetta ljómandi vel og nú liggur Dröfnin við akkeri á heldur meira dýpi nokkru fjær landi.
Ólíklegt að skemmdir hafi orðið
Gunnar Jóhannsson, skipstjóri á Dröfninni, telur ólíklegt að skemmdir hafi orðið á skipinu. „Við vitum það ekki enn þar sem við höfum ekki kafað undir bátinn, en það er afar ólíklegt. Þetta hefði verið verra ef þetta hefði verið steinn eða sker, en svo var ekki, þarna er bara sandur og möl undir.“
Gunnar sagði engum hafa verið brugðið um borð þegar báturinn tók niðri. „Þetta er bara eitthvað sem maður getur átt von á þegar maður fer inn á svona svæði í svona verkefnum,“ sagði Gunnar í samtali við fréttastofu í nótt, en skipverjar vinna að því að leggja út straum- og súrefnismæla á þessum slóðum. Gunnar reiknar með að það verk verði klárað á morgun.
Sex björgunarsveitarmenn á þremur gúmbátum aðstoðuðu við að koma Dröfninni á flot og kann Gunnar þeim hinar bestu þakkir fyrir.



































