Færslur: 2011 Desember
22.12.2011 00:00
Rækjuveiði verður örugglega leyfð
eða svo segir Hlynur Björnsson Vélstjóri á Ýmir BA-32. sskr 1499. En þeir voru í seiðarannsókn fyrir hafró í síðustu viku og hann var svo bjartsýnn að hann sagði þetta við mig og ég trúi honum.
Rannsókninni lauk á fimmtudaginn svo við gætum fengið að vita þetta fyrir jól nema hafró sé farin í jólafrí. Það væri kærkomið að hreyfa bátinn þ.e.a.s Andra BA-101 en hann hefur legið óhreyfður síðan 28. janúar síðastliðinn ef frá er talin ein ferð suður í Stykkishólm þar sem hann var tekin í slipp.
Hér sjáum við Svan Þór Jónsson tilbúinn í löndun úr Andra BA-101 í mars 2009 er þetta fyrsta löndun bátsins á Bíldudal nánar tiltekið 23.03.2009.
Einbeittur á svipinn.
Þarna ríkti mikill bjartsýni hjá okkur Hafró búin að leyfa 500 tonna kvóta og við máttum veiða 125 tonn. Svo bjartsýnir vorum við að við ákváðum að skipta um spil og allt glussakerfi í bátnum og setja tog og dragnótartromlu um borð. En þá komu fyrstu neikvæðu fréttirnar kvótinn var skorinn niður úr 500 tonnum niður í 300 tonn og máttum við veiða 75 tonn. Svo það varð mikið reiðarslag fyrir reksturinn þegar ný var búið að fara í svona miklar fjárfestingar. Enginn teikn voru á lofti að stofninn væri á niðurleið. Svo á síðustu vertíð var kvótinn 400 tonn og fengum við að veiða 100 tonn. Svo í ár hefur ekki verið gefið út aflamark í Arnarfjarðarrækju vegna seiða í firðinum, og við vitum að stofn rannsóknin í haust eykur ekki bjartsýni okkar á stórum heildarkvóta en við vonum það besta.
En við skulum vona að kvótinn verði stærri heldur en þessi mynd gefur til kynna
Hey þetta er nú ekki skipstjórinn á Andranum nei nei þetta er nú gamall rækjusjómaður úr Arnarfirði sem man tímana tvenna, að upplifa rækjufílinginn svona rétt fyrir elliheimilið
© myndir og texti Jón Páll Jakobsson, 17. des. 2011
( sjá tengil á síðu hans hér til hliðar)
21.12.2011 23:00
Fuglfirðingur FD 45
Hér sjáum við færeyskabátinn Fuglfirðing FD 45, á árinu 1968, en hann var rifinn í Esbjerg árið 1994 © mynd vagaskip.dk
21.12.2011 20:10
TK BRENEN
TK BREMEN © mynd shipspotting, Christian Plagvé, 18. des. 2011
21.12.2011 19:45
Lúðuveiðar bannaðar
| Nr. 1164/2011 | 19. desember 2011 |
REGLUGERÐ | |
| um bann við veiðum á lúðu. | |
1. gr. Allar beinar veiðar á lúðu í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar. 2. gr. Komi lúða um borð í veiðiskip sem meðafli skal umsvifalaust sleppa henni sé hún lífvænleg. Við línuveiðar skal sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar. Við handfæra- og sjóstangaveiðar skal losa lúðuna varfærnislega af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð. 3. gr. Til að koma í veg fyrir að stórlúða fari í móttöku skips, er skylt við botnvörpuveiðar þar sem móttaka er lægra en aðalþilfar skipsins, að hafa rist þar sem fiski er hleypt í móttöku. Fiskistofu er heimilt að veita undanþágu frá notkun ristar þegar henni verður ekki viðkomið t.d. vegna smæðar báts. Rimlabil ristarinnar skal að hámarki vera 40 sentimetrar. Gildir þetta á svæði sem afmarkast af línu sem dregin er austur úr Dalatanga, réttsælis og allt að línu sem dregin er réttvísandi norðvestur úr Horni. 4. gr. Með aflaverðmæti lúðu sem landað er skal farið eftir ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum. Lúðuafli skal seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og skal andvirði aflans renna til sjóðs sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, að frádregnum kostnaði við uppboðið. 5. gr. Skipstjóra er skylt að halda afladagbók, sbr. reglugerð nr. 557/2007, um afladagbækur, með síðari breytingum. Skrá skal í afladagbók upplýsingar s.s. um veiðarfæri, veiðistað og veiðidag, um þá lúðu sem sleppt er í hverju kasti/lögn/togi. 6. gr. Með mál sem kunna að rísa út af brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar skal farið að hætti opinberra mála. Brot varða viðurlögum samkvæmt 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum. 7. gr. Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum til þess að öðlast gildi 1. janúar 2012 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 19. desember 2011. F. h. r. Jóhann Guðmundsson. Þórhallur Ottesen. | |
| B-deild - Útgáfud.: 20. desember 2011 | |
21.12.2011 19:00
Síldveiðar á Breiðafirði
Undanfarna daga hafa birst fréttir af dauðri síld á Breiðafirði. Af því tilefni hafa útgerðir síldarskipa fundað og farið yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að fram hafi komið að á vissum stöðum séu aðstæður til veiðanna erfiðar, þar sem þær séu stundaðar á mjög grunnu vatni. Botnlag sé misjafnt og straumar sterkir sem hafi óhjákvæmilega leitt til þess að nætur hafi rifnað og síld sloppið út jafnvel þó að ítrustu varúðar hafi verið gætt.
Á undanförnum árum hefur lang stærstur hluti íslenska síldarstofnsins haft vetursetu á mjög afmörkuðum svæðum á Breiðafirði. Sem dæmi má nefna að yfir sjö hundruð þúsund tonn af síld mældust með bergmálsmælingu á Kiðeyjarsundi þegar mest var. Frá því að Ichthyophonus hoferi sýkingin kom upp í stofninum haustið 2008 hafa hundruð þúsunda tonna af síld drepist, m.a. á Breiðafirði.
Friðrik segir að útgerðir síldarskipa leggi áherslu á að umgengni um síldarmiðin verði eins góð og best verður á kosið. Í því skyni hafi verið ákveðið að samstarf útgerðanna um veiðarnar verði enn nánara á næstu vertíð en verið hefur við að miðla afla á milli skipa og til að draga úr hættunni á að óhöpp verði við veiðarnar.
"Útgerðirnar taka fréttir af dauðri síld á Breiðafirði mjög alvarlega og munu leggja sig allar fram um að áhrif veiðanna verði eins lítil og mögulegt er," segir Friðrik J. Arngrímsson.
21.12.2011 18:00
Birkeland
Birkeland, í Stavanger, Noregi © mynd shipspotting, mrbjaneso
21.12.2011 17:40
Gríðarleg áhrif 27% veiðigjalds á sjávarbyggðir
Gangi áform stjórnvalda eftir um 27% veiðigjald af vergri framlegð (EBITDA) fiskiskipaflotans munu útgerðir í Vestmannaeyjum greiða 1.245 milljónir króna á ári m.v. fyrirliggjandi forsendur á þessu fiskveiðiári. Þetta má leiða út úr svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar alþingismanns.
Til þess að setja þessa skattgreiðslu í samhengi við áþreifanlegt dæmi nemur þessi fjárhæð hátt í kaupverðið á hinum nýja togara Vestmanneyinga, Þórunni Sveinsdóttur VE 401. Þessi áform stjórnvalda munu hafa mjög alvarleg áhrif á fjárhagslega stöðu fjölmargra sjávarútvegsfyrirtækja og byggðarlög. Viðbúið er að fjöldi fyrirtækja muni neyðast til að hætta rekstri, sameinast arðbærustu fyrirtækjunum eða þau lendi í þroti.
Hér að neðan er listi yfir heimahafnir og tilgreindar þær fjárhæðir sem viðkomandi útgerðir í viðkomandi byggðarlögum munu koma til með að greiða, gangi þessi áform eftir. Byggðarlögin sem verma efstu sætin eru auk Vestmannaeyja, Reykjavík með um 1.150 milljónir króna, Grindavík greiðir 654 milljónir króna, Akranes 496 milljónir króna, Neskaupstaður 456 milljónir króna og Hornafjörður mun greiða 388 milljónir króna. Listi yfir einstakar hafnir.
21.12.2011 15:35
TF - SIF væntanleg heim í dag
Verkefnum TF-SIF, flugvélar Landhelgisgæslunnar árið 2011 er nú lokið fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Flugvélin er nú á heimleið frá Ítalíu og er gert ráð fyrir að hún lendi á Reykjavíkurflugvelli í dag miðvikudag.
TF-SIF hefur síðastliðna tvo mánuði gert út frá Brindisi og verið við eftirlit á Miðjarðarhafi og Eyjahafi. Á tímabilinu hefur áhöfn flugvélarinnar fundið báta og fleytur með alls 267 flóttamönnum sem síðan var komið til bjargar og aðstoðar með varðskipum og björgunarbátum á svæðinu.
Landhelgisgæslan tók á árinu þátt í verkefnum Frontex með varðskipinu Ægi samfleytt frá júní-október en flugvélinni TF-SIF, með hléum frá sama tíma. Varðskipið Ægir tók þátt í fjöldamörgum björgunaraðgerðum þar sem samtals 495 flóttamönnum var bjargað um borð og fluttir til hafnar með varðskipinu Ægi eða öðrum björgunarskipum á svæðinu, þar af voru 272 í alvarlegum lífsháska.

Megintilgangur með eftirliti Frontex er landamæragæsla en verkefnin þróast oft á tíðum yfir í að verða björgunaraðgerðir. Á sjó stafar það m.a. af því að fólkið er á illa útbúnum fleytum sem ekki eru ætlaðar til lengri siglinga. Þeim sem skipuleggja smyglið stendur í flestum tilfellum á sama um örlög flóttafólksins eftir að þeir hafa fengið fargjaldið greitt.
Hluti af áhöfn TF-SIF
Í upplýsingum frá Frontex kemur fram að Alþjóðasiglingamálastofnunin (á ensku: IMO sem stendur fyrir International Maritime Organization) tekur árlega saman upplýsingar um björgunaraðgerðir á hafinu en þar segir að á árinu 2010 hafi tæki á vegum Frontex bjargað 98 % af öllum þeim sem bjargað var á sjó í heiminum. Samkvæmt því má segja að mannúðarstarf sé viðamikill þáttur í starfsemi Frontex.
Mynd TF-SIF og Ægir: Guðmundur St. Valdimarsson.
21.12.2011 15:05
Sjómenn gera góðverk
Áhöfnin á togaranum Helgu Maríu AK 16, sem HB Grandi gerir út, hefur ákveðið að styrkja Fjölskylduhjálp Íslands um 300.00 kr. fyrir jólin. Skipstjórinn segir að áhöfnin reyni að leggja góðu málefni lið, enda ástandið víða erfitt vegna atvinnuleysis.
Eiríkur Ragnarsson, skipstjóri Helgu Maríu, segir í samtali við mbl.is að áhöfnin hafi gert þetta áður, en í fyrra fór styrkurinn til Mæðrastyrksnefndar.
Hann segir að áhöfnin sé svo lánsöm að hafa vinnu og vera aflögufær. Þeir vilji endilega láta gott af sér leiða. "Ekki veitir af fyrir fólkið. Það er skelfilegt að horfa á fréttirnar og sjá hvað margir eiga bágt," segir Eiríkur.
Eiríkur hvetur aðra, bæði einstaklinga og fyrirtæki sem séu aflögufær, að láta eitthvað af hendi rakna til þeirra sem minna mega sín.
Fleiri hafa látið gott af sér leiða
Hann bendir á að fleiri áhafnir hafi einnig látið gott af sér leiða nú um jólin.
Í gær var t.a.m. greint frá því að áhöfn togarans Björgvins EA-311 hafi fært Mæðrastyrksnefnd á Akureyri og félagsþjónustunni á Dalvík peningagjöf að upphæð 300 þúsund krónur.
Þá hefur áhöfnin á togaranum Vilhelm Þorsteinssyni EA-11 safnað hálfri milljón króna til góðgerðarmála fyrir þessi jól sem skiptist milli þriggja aðila þetta árið, m.a. Mæðrastyrksnefndar og Ljósberans.
21.12.2011 15:00
Fór á hliðina í Baldri
Óhapp varð í Breiðafjarðarferjunni Baldri í gærkvöldi þegar vagn með gámalyftara, sem var tengdur við flutningabifreið, fór á hliðina. Að sögn eiganda bílsins var mikil ölduhæð þegar ferjan var að sigla til Stykkishólms.
Sævar Ingi Benediktsson, eigandi flutningafyrirtækisins BB og synir, segir í samtali við mbl.is að engan hafi sakað. Hann fékk upplýsingar um óhappið um kl. 21 í gærkvöldi en hann segir að atvikið hafi átt sér stað á áttunda tímanum.
"Bíllinn stóð á framdekkinu og lyftist upp öðru megin að aftan, en vagninn fór nánast í 90 gráður," segir Sævar.
21.12.2011 13:00
Guðmundur Jensson SH 717
1426. Guðmundur Jensson SH 717, á dragnót á Breiðafirði og eftirlitsmenn frá Ægi að fara um borð © mynd Jón Páll Ásgeirsson, í des. 2011
21.12.2011 12:10
Þá lengir aftur
© mynd Jón Páll Jakobsson, 2011


