26.01.2020 18:11
Óvenju mikið landris hefur mælst á Reykjanesskaga rétt vestan við fjallið Þorbjörn
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum virkjað óvissustig almannavarna vegna þess sem talið er vera kvikusöfnun á Reykjanesskaga, rétt vestan við fjallið Þorbjörn.
Boðað hefur verið til íbúafundar í Grindavík kl. 16 á morgun, mánudaginn 27. janúar. Á íbúafundunum verður farið nánar yfir stöðu mála með fulltrúum almannavarna, viðbragðsaðila og vísindamanna.
Sólarhringsvakt Veðurstofunnar hefur aukið eftirlit með svæðinu. Þar að auki verður eftirlit aukið með uppsetningu fleiri mælitækja til að vakta og greina betur framvindu atburða.
Mesti landrishraði síðan mælingar hófust
Óvenju mikið landris hefur mælst á Reykjanesskaga rétt vestan við fjallið Þorbjörn undanfarna daga og nemur risið um 3 til 4 mm á dag. Landrisið er líklegast vísbending um kvikusöfnun á nokkura kílómetra dýpi og hefur óvissustig Almannavarna verið virkjað.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
