20.02.2018 07:00

Dælt upp úr ,,Seniver"

Sjálfsagt eru ekki margir sem kannast við sögu þess að bátur þessi gengur undir nafninu ,,Seniver". Mun ég því rifja hana upp í stórum dráttur. Nýlega eftir eigendaskipti fyrir tugum ára, var báturinn leigður og fóru leigutakar með hann  til Belgíu þar sem hann var fylltur af Seniver, sem smygla átti hingað til lands. Það tókst og var skipað upp úr bátnum í Hafnarfirði og farmurinn að mestu falinn í skipsflaki inn við sund í Reykjavík. Upp komst þó um verknaðinn og í framhaldi af því var báturinn gerður upptækur af ríkinu, en samkvæmt lögum þá eru flutningatæki sem flytja ólöglegan farm að stórum hluta gert upptækt af Ríkissjóði.

Þar sem eigandi bátsins tapaði þarna bátnum, án þess að hafa nokkuð komið við sögu samþykkti Alþingi að gera undanþágu í þessu tilefni. Eftir það hefur báturinn gengið kaupum og sölu, hvað eftir annað, en milli manna oftast kallaður ,,Seniver".  M.a. var bátnum breytt úr afturbyggðum báti í frambyggðan, hér fyrr á árum.

Í gærmorgun var Köfunarþjónusta Sigurðar kölluð út þar sem sjór var kominn í vélarrúm bátsins þar sem hann liggur í Njarðvíkurhöfn og heitir nú Orri GK 63. Dældu þeir úr bátnum sjónum sem kominn var upp á vél.

 

         923. Orri GK 63, oftast nefndur Seniver og nú dældi Köfunarþjónusta Sigurðar upp úr bátnum © mynd Emil Páll, 19. feb. 2018