07.06.2017 21:00

Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar 2017 - 30 ára, kemur út á morgun

 

Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar 2017 er að koma út fyrir sjómannadaginn eða nánar tiltekið á morgun fimmtudaginn 8. júní. Eins og áður er það með fjölbreyttu efni en fyrsta blaðið kom út 1987 þannig að það er 30 ára afmæli í ár. Blaðið byrjar á ávarpi Þorgerðar Katrínar ráðherra sjávarútvegsmála og hugvekju flytur Helga Björk Jónsdóttir djákni. Viðtal er við Pétur Bogason fv sjómann sem fluttist til Ólafsvíkur 1966 en hann hefur frá mörgu að segja og hefur stundað mörg og fjölbreytt störf. Sæmundur Kristjánsson í Rifi tók saman nokkur ár úr dagbókum Benedikts S Benediktssonar frá Hellissandi þar sem hann segir frá lífi Neshreppinga utan Ennis. Benedikt byrjaði að halda dagbók árið 1928 og tekin eru fyrir fyrstu fimm árin og er þar mikinn fróðleik að finna. Örn Alexandersson skipstjóri og kona hans Aðalheiður St. Eiríksdóttir segja frá fjallaklifri þeirra hjóna fyrir nokkrum árum á fjallið Kilimanjaro. Þau gefa ekkert eftir en stefnan er núna tekin á Mont Blanc. Þá er heimsókn í fyrirtækið Þórsnes ehf í Stykkishólmi og líka er hafnarvörðurinn þar tekinn tali.

Magnús Jónasson skipstjóri á Ólafi Bjarnasyni SH í Ólafsvík segir frá eftirminnilegum túr til Suður Afríku á flutningaskipinu Ísborg og viðtal er við Víking Halldórsson fv skipstjóra í Ólafsvík en hann var yngsti sonur Halldórs heitins Jónssonar útgerðarmanns í Ólafsvík þess dugnaðarmanns. Tvær konur frá Ólafsvík segja frá, önnur Rut Garðarsdóttir er flugstjóri hjá Rayanair og Gréta Björk Valdemarsdóttir segir frá eyjunni Ustica í Miðjarðarhafi eða Svörtu perlunni en þar býr hún hluta úr ári. Viðtal er við Hjört Sigurðsson skipstjóra og útgerðarmann á Kviku SH á Arnarstapa en nóg er að gera hjá honum og fjölskyldu hans. Þá er viðtal við Samúel Sigurjónsson yfirvélstjóra á Örvari SH 777 og Kristín Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri segir frá sjóslysi 1940 en afi hennar komst lífs af úr því slysi. Farið yfir útgerðarsögu Sigurðar heitins Valdimarssonar í Ólafsvík og skemmtileg grein er eftir hinn eina sanna Þorgrím Þráinsson þar sem hann segir frá uppvextinum í Ólafsvík. Frásögn er eftir Reynir Rúnar Reynisson en þar segir hann frá er vélbáturinn Saxhamar SH fékk á sig mikið brot í febrúar 1980 og var hætt komin. Þá segja nokkur börn í 9. bekk GSNB frá sinni upplifun af sjó og sjómennsku og er það mjög áhugavert sem þar kemur fram.

Sjómannadögum 2016 á Snæfellsnesi eru gerð góð skil og þá er fjölda annara greina og ekki síst mynda sem prýða blaðið.  Blaðið er brotið um í Steinprent ehf í Ólafsfsvík eins og áður og er 96 síður og allt í lit. Ritstjóri er Pétur Steinar Jóhannsson. Blaðið verður til sölu á suðursvæðinu í fasteignasölunni Valhöll Síðumúla 27 108 Reykjavík en því miður er búið að loka Grandakaffi þar sem það var áður í mörg ár.

Vonandi finna allir eitthvað við sitt hæfi i blaðinu og ég þakka ávallt góðar viðtökur. Ég óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sjómannadags

           Pétur Steinar Jóhannsson