10.05.2016 21:00
Fórst í mannskaðaveðri, rétt áður en nýr togari í hans eigu kom til landsins - 3 myndir
Jafet Ólafsson var einn kunnasti skútuskipstjóri við Faxaflóa um og eftir aldarmótin 1900. Jafet var fæddur árið 1873, í Njarðvík, en m.a. ættaður af Vatnsleysuströnd. Hann hóf sjómennsku á barnsaldri og stundaði framan af róðra á opnum skipum. Árið 1894 tók hann að vera til sjós á þilfarsskipum og gekk í stýrimannaskólann ári síðar.
![]() |
|
|
Þaðan lauk Jafet prófi með góðum vitnisburði, var þá stýrimaður í eitt ár, en eftir það skipstjóri til dauðadags. Jafet fórst í mannskaðaveðrinu mikla 7. apríl 1906, 33 ára gamall. Skip hans Sophie Wethley, hraktist upp að Mýrum og brotnaði í spón og allir menn fórust.
Að sögn heimamanna í Njarðvík og Vatnsleysuströnd sást til hans á siglingu þar fyrir utan kvöldið áður.
![]() |
||
|
Jafet Ólafsson var talinn ágætur sjómaður og fyrirmyndar skipstjóri bæði hvað varðar stjórnsemi og reglusemi á öllu, er starfi hans tilheyrði. Hann var fjörmaður mikill, skjótráður og fylginn sér, aflaði í bezta lagi. Lík Jafets rak haustið eftir að slysið varð. Var hann jarðsunginn frá Reykjavík að viðstöddu miklu fjölmenni.
Jafet Ólafsson var einn þeirra ötulustu skipstjóra sem stofnuðu togararfélagið Alliance. (Sagður annar af stærstu hluthöfum). Ekki auðnaðist honum að sjá það félag rísa verulega á legg, því fyrsti togari þessi, Jón forseti, kom hingað fáum mánuðum eftir að Jafet hafði verið lagður til hinztu hvíldar.
Heimild: Skútuöldin eftir Gils Guðmundsson o.fl. |



