15.01.2015 20:00

Sólplast í dag: Óvænt niðurstaða í viðgerð á Von GK 113

Um síðustu helgi sagði ég frá ævintýralegri ferð á bátnum Von GK 113, sem lenti í tjóni á Skagaströnd og tryggingafélagið vildi að báturinn yrði fluttur til Sandgerðis í viðgerð hjá Sólplasti. Fyrst var hann settur á bíl og ekið með hann til Akraness, þar sem hann átti að sigla til Njarðvíkur og fara þar í Gullvagninn hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur til Sandgerðis.
Ferðin fór þó nokkuð á annan veg. Í fyrsta lagi var veður orðið svo vont þegar komið var til Akraness að báturinn ásamt tveimur öðrum sem notuðu ferðina, urðu að bíða á flutningavögnum þar til veður lægði svo hægt væri að hífa þá í sjóinn og var það nokkra daga bið. Rétt fyrir síðustu helgi voru þeir loksins hífðir í sjóinn og sigldu fljótlega til Suðurnesja.
Þegar Von GK átti að fara í Gullvagninn kom upp annað vandamál og fór svo að báturinn sigldi til Sandgerðis og stóð til að hífa hann þar á land. Áður en að því kom fór Kristján Nielsen hjá Sólplasti að skoða hvað væri að í bátnum og kom þá í ljós að það var ekki ástæða til að taka hann á land til að gera við hann og hóf hann því í gær viðgerð um borð í bátnum við bryggju í Sandgerði og á von á að ljúka henni jafnvel á morgun. Mun báturinn þá geta aftur hafið veiðar á ný, en einhvern tímann síðar verður hann tekinn á land til að klára viðgerðina sem ekki er aðkallandi nú.
Birti ég hér myndir sem ég tók í Sandgerði í dag. Þó ótrúlegt er það ekki aðeins síðan hér sem er biluð, eða báturinn því í gær bilaði linsa á myndavélinni minni, þannig að ég get aðeins tekið með aðdráttarlinsu og því eru allar myndirnar nema þar sem báturinn sést allur við bryggju, teknar í dag á símann minn og á þremur þeirra sést Kristján vera á leið um borð í bátinn.


               2733. Von GK 113, í Sandgerði, í dag © mynd Emil Páll, 15. jan. 2015

        Kristján Nielsen, við Von GK, í Sandgerðishöfn í dag © símamynd Emil Páll, 15. jan. 2015

      Kristján Nielsen, við Von GK, í Sandgerðishöfn í dag © símamynd Emil Páll, 15. jan. 2015

        Kristján Nielsen, við Von GK, í Sandgerðishöfn í dag © símamynd Emil Páll, 15. jan. 2015

       2733. Von GK 113, við bryggju í Sandgerði í dag. Við hlið bátsins sést innsiglingabaugja sem á eftir að setja í innsiglinguna til Sandgerðis © símamynd Emil Páll, 15. jan. 2015

 

AF FACEBOOK:

Guðni Ölversson Hver á þennan bát Emil.
Emil Páll Jónsson Útgerðarfélag Sandgerðis
Guðni Ölversson Þetta eru flottir bátar. Nú á að hefja framleiðaslu á Spútnink aftur. Sú smíði fer fram í Litháen eftir því sem ég hef heyrt og þeir ætla að bæta 15 metra bátum við framleiðsluna.