05.01.2015 15:15
Risaskip sigldi 70 mílur út af Ingólfshöfða
mbl.is
Risastórt stórflutningaskip, Navios Bonavis, sigldi framhjá landinu um helgina. Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar komu auga á skipið á laugardag þar sem það var á hægri ferð í vestur um 70 sjómílur suður af Ingólfshöfða.
Skipið er skráð í Panama en er í grískri eigu. Það er tæp 100 þúsund tonn, tæplega 300 metra langt og 45 metrar á breidd. Lestað ristir skipið um tólf metra. Samkvæmt eftirlitskerfunum var það á leið frá Englandi til Kanada. Ekki kom fram hver farmur skipsins var.
Landhelgisgæslan segir ekki óalgengt að skip á siglingu yfir Norður-Atlantshafið leiti þetta langt norður eftir til að forðast lægðir og meðfylgjandi óveður og slæmt sjólag.
