20.11.2014 21:00
Skarfaklettur GK 3, strandar við Sandgerði - myndir frá mér og frásögn Morgunblaðsins
Hér birti ég myndasyrpu sem ég tók neðan við Setberg í Sandgerði þann 13. nóv. 1997, er báturinn strandaði og mannskapurinn gekk fá borði. Þarna er björgunarsveitin komin á staðinn. Einnig birti ég frásögn Morgunblaðsins af strandinu, en vill leiðrétta þetta sem blaðamenn eru mjög gjarnir að gera, þ.e. að kalla litla þilfarsbáta, trillur. Samkvæmt því gætu þeir allt eins kallað litla vörubíla, hjólbörur.
![]() |
||||||||||||
|
|
Mannbjörg er 6 tonna bátur strandaði við Sandgerði
Skipverjar gengu í land
TÆPLEGA sex tonna trilla, Skarfaklettur GK 3 frá Sandgerði, strandaði við Setberg, um einn km sunnan Sandgerðis laust fyrir klukkan 20 í gærkvöld. Tveggja manna áhöfn trillunnar var engin hætta búin enda blíðuveður og gengu skipverjar í land.
Björgunarsveitir höfðu strax mikinn viðbúnað enda ekki vitað um aðstæður á strandstað né hvort unnt væri að bjarga mönnunum frá landi eða af sjó. Milli 15 og 20 menn frá björgunarsveitunum Sigurvon í Sandgerði og Ægi í Garði voru komnir á strandstað innan við hálftíma eftir útkall. Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út en aðstoð hennar afþökkuð áður en hún fór í loftið þar sem ljóst var að hægt var að bjarga mönnunum úr landi.
"Þegar ég sá hversu stutt var í land varð mér ljóst að engin hætta var á ferðum," sagði Gunnar Þór Grétarsson, skipstjóri, á strandstað í gærkvöld þar sem hann var að bjarga aflanum frá borði með aðstoð björgunarsveitarmanna. Gunnar sagði að einhver sjór hefði komist í vél og hugsanlega í lestina enda fór báturinn nánast á hliðina þegar hann tók niðri á grynningunum en þá var að falla út. Sagði hann að þegar skemmdir hefðu verið kannaðar væri hægt að ákveða hvort hann yrði dreginn á flot eða hreinlega upp í sandfjöruna og fluttur burt. Björgunarskipið Elding GK var einnig kallað á strandstað og var til taks ef draga ætti bátinn á flot í nótt.
Gunnar vildi ekki geta sér til um ástæðu strandsins en báturinn var á leið til hafnar í Sandgerði. Gunnar gaf skýrslu hjá lögreglu á strandstað.







