28.10.2014 13:14

Furðuleg framkoma varðandi Jón Gunnlaugs ST og Sæmund GK í Englandi

Á morgun er væntanlegur þangað sem Jón Gunnlaugs ST 444 og Sæmundur GK 4 hafa verið kyrrsettir, dráttarbátur frá Belgíu til að sækja bátanna. Þá er búið að skipta um skipstjóra á Jóni Gunnlaugs og annar kominn héðan að heiman.

Eru bátarnir búnir að vera töluverðan tíma kyrrsettir í Englandi og virðist eitthvað furðulegt vera þarna á ferðinni. Bátarnir sem voru á leiðinni í pottinn í Belgíu, áttu aðeins eftir um sólarhring, en var samt gert að lagfæra ýmislegt um borð. Auk þess er vitað til þess að stjórnvöld þarna ytra leitaði til opinberra aðila hérlendist til að fá upplýsingar um hvort eitt og annað væri ekki í ólagi, þegar skipið fór. M.a. hefur frést að því að þeir hafi talið að botninn væri ekki í góðu lagi og var það kannað hér, þar sem báðir bátarnir voru teknir í slipp fyrir stuttu síðan. Við viðræður við aðila hér heim sem skoðaði báða bátanna, meðan þeir voru í slipp, gátu viðkomandi lagt fram myndir um að allt væri í lagi. Samkvæmt þessu er ljóst að leitað var eftir öllu til að rökstyðja kyrrsetninguna.

Helst telja menn að þessi furðulega framkoma tengist makríldeilunni milli Íslands, Bretlands o.fl. landa. Aðalmálið er að ef þetta tengist þessari deilu, þá eru bátarnir tveir ekki í eigu íslendinga, þar sem Belgirnir sem rífa þá niður að lokum, eru skráðir eigendur af bátunum.

Vart þarf að taka fram að þetta er framhaldafrétt af fyrri fréttum sem ég hef flutt hér á siðunni um sama mál.

Hér birti ég mynd af bátunum er þeir yfirgáfu Njarðvík á sínum tíma.

             1204. Jón Gunnlaugs ST 444 með 1264. Sæmund GK 4 yfirgefur Njarðvík í leið í pottinn © mynd Emil Páll, 9. okt. 2014