19.09.2014 08:20

Gæslan yfirtekur skipið sem strandaði

visir.is

Gæslan yfirtekur skipið sem strandaði

Landhelgisgæslan hefur tekið fram fyrir hendur á útgerð og tryggingafélagi flutningaskipsins Green Freezer, sem strandaði í Fáskrúðsfirði í fyrrakvöld, og ætlar að draga skipið á flot hverju sem tautar og raular.

Eigendur skipsins höfðu fengið frest fram á kvöld í gær til að leggja fram raunhæfa björgunaráætlun, eftir að hafa afþakkað aðstoð togara í fyrrakvöld, dráttarbáts í gærmorgun og síðast varðskips í gærkvöldi, við að draga skipið á flot.

En þegar áætlunin lá ekki fyrir á tilsettum tíma, áakvað Landhelgisgæslan undir miðnætti, í samráði við við Umhverfisstofnun að beita svonefnum íhlutunarrétti, í samræmi við lög um verndun hafs og strandar, en lögunum er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir umhverfisvá.
 

Skipverjar á varðskipinu Þór, sem er á vettvangi, eru þegar farnir að undribúa aðgerðir í samvinnu við fleiri viðbragðsaðila og er stefnt að því að draga skipið á flot á háflóðinu klukkan tíu fyrir hádegi, en nánari upplýsingar um aðgerðirnar liggja ekki fyrir að svo stöddu, og heldur ekki hvert skipið verður dregið, en stýri og skrúfa þess munu vera löskuð, eftir að skipinu var bakkað upp í malarkamb í fjörunni í fyrrakvöld. Skipið er skráð á Bahama eyjum. 17 manna áhöfnin er enn um borð í skipinu og er gott veður á strandstað.