13.09.2014 07:10

Arnar kaupir Gunnbjörn ÍS

bb.is:

Gunnbjörn ÍS.
                                              Gunnbjörn ÍS.
 

Sólberg ehf., sem er í eigu Arnars Kristjánssonar, skipstjóra og útgerðarmanns á Ísafirði, hefur keypt togarann Gunnbjörn ÍS af útgerðarfélaginu Birni ehf. Sólberg ehf. kaupir togarann með veiðiheimildum í úthafsrækju og ætlar að veiða rækju fyrir rækjuverksmiðjuna Kampa ehf. á Ísafirði. „Það verður unnið að því núna að koma honum í drift sem fyrst og halda til veiða,“ segir Arnar. Hann hefur um árabil gert út togskipið Ísborg ÍS og segir Arnar að hann ætli að gera út bæði skipin til að byrja með, hvað sem síðar verður.

Aðspurður hvort hann verði sjálfur í brúnni á Gunnbirni segir Arnar það óráðið en hann verði með skipið til að byrja með. „Sem betur fer stendur rækjuiðnaðurinn ennþá undir talsverðum fjölda starfa á Ísafirði og ekki barist til einskis í vetur. Menn verða svo bara að taka því sem að höndum ber í þessum bransa,“ segir Arnar.

Gunnbjörn var smíðaður í Flekkefjord í Noregi árið 1973 fyrir Kaupfélag Dýrfirðinga og hét lengst af Framnes. Íshúsfélag Ísfirðinga keypti Framnes af Kaupfélagi Dýrfirðinga. Íshúsfélag Ísfirðinga sameinaðist inn í Hraðfrystihúsið - Gunnvör og gerði HG Framnes út á rækju til 2005 þegar HG hætti rækjuvinnslu. Birnir ehf. keypti togarann skömmu síðar og gerði hann út á rækju undir nafninu Gunnbjörn en hann hefur ekki verið á veiðum frá því í október í fyrra.