06.09.2014 09:21
Óttast olíuleka úr skipinu
ruv.is:

Akrafell á strandstað í morgun. Aðalsteinn Jónsson og Vilhelm Þorsteinsson eru þar rétt hjá. RÚV-mynd: Rúnar Snær Reynisson.
Búið er að koma fjórum dælum um borð í flutningaskipið Akrafell sem strandaði við Vattarnes milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar um klukkan fimm í nótt. Þá hefur verið komið fyrir taug úr Akrafelli í fiskiskipið Aðalstein Jónsson sem kom til aðstoðar ásamt Vilhelmi Þorsteinssyni.
Einnig eru björgunarskip og léttbátar á vettvangi og nokkrir björgunarsveitarmenn eru komnir um borð til að aðstoða við að dæla sjó úr skipinu. Mikill sjór komst í vélarrúm Akrafells við strandið. Óttast er um olíuleka en talið er að rúmlega 140 rúmmetrar af svartolíu og um 40 af dísilolíu séu í skipinu. Boðað hefur verið til samráðsfundar Umhverfisstofunar, Samskipa og Landhelgisgæslunnar af þeim sökum. Þrettán eru í áhöfn, frá Austur-Evrópu og Filippseyjum. Skipverjar eru ekki í hættu og beinist starfið nú að því að bjarga skipinu. Logn er og lygn sjór. Lágfjara var þegar Akrafell strandaði. Það hreyfist nokkuð á strandstað en er stöðugt. Skipið strandaði rétt utan við vitann við sunnanverðan Reyðarfjörð.
Ár er síðan Akrafell bættist í flota Samskipa. Það var keypt notað, byggt í Kína 2003 og er systurskip Pioneer Bay sem hefur verið notað við strandsiglingar hérlendis.
