06.09.2014 10:31

Akrafellið beygði ekki inn fjörðinn og sigldi því í strand

ruv.is:

Akrafell strandaði við Vattarnes. RÚV-mynd: Rúnar Snær Reynisson.
 
 

Flutningaskipið Akrafell var að koma frá Akureyri þegar það strandaði við Vattarnes klukkan fimm í morgun. Skipið var á leið til Reyðarfjarðar en af einhverjum ástæðum beygði það ekki inn fjörðinn heldur hélt för sinni áfram þar til það strandaði við Vattarnes. Þar stöðvaðist það á grjóti á fjöru.

Nú verður beðið eftir flóði sem verður um hádegisbil en þá þykja mestar líkur á að skipið náist á flot. Dráttartaug var komið í Akrafell frá Aðalsteini Jónssyni SU í morgun. Varðskipið Ægir er væntanlegt um hádegisbil og tekur þá við hvort tveggja dráttartauginni og vettvangsstjórn. Nú hefur björgunarskipið Hafbjörg frá Neskaupstað vettvangsstjórn með höndum.

Enn hefur ekki tekist að ná tökum á lekanum. Enn berst meiri sjór inn í vélarrúm og lagnagang skipsins en tekst að dæla úr því. Ekki er sjáanlegur leki í lest. Sex skipverjar eru enn um borð ásamt sex til átta björgunar- og slökkviliðsmönnum sem vinna við dælingu. Ekki er komið í ljós hvar á kilinum sjór lekur inn í skipið en kafarar af Ægi kanna botn skipsins þegar varðskipið kemur á vettvang. Mengunar hefur ekki orðið vart við skipið en unnið er að því að koma mengunarvarnargirðingum á staðinn.