04.07.2014 08:59
Skemmtiferðaskip afboða komu sína til Ísafjarðar, vegna veðurs
bb.is:
Vegna veðurs koma skemmtiferðaskipin Oriana og AIDA Cara ekki til Ísafjarðar í dag. Þar með fjúka ekki 3500 farþegar skipanna um Ísafjörð og nágrenni þar sem veðrið er ansi haustlegt, ef svo má segja. Oriana er tæplega 70.000 tonn og ber tæplega 2.200 farþega en skipið telst meðal mestu lúxusskipa í heimi. Ítalska skemmtiferðaskipið AIDA Cara er tæplega 39.000 tonn að stærð og farþegar eru ríflega 1.300 talsins.
Þau eru því þrjú talsins, skipin sem hafa afboðað komu sína til Ísafjarðar vegna veðurs í þessari viku. MSC Magnifica átti að koma í fyrradag. Það er eitt af stærri skemmtiferðaskipum sem boðuðu komu sína til Ísafjarðar í sumar, rúm 92.000 tonn, og um borð eru um það bil 3.000 farþegar.
harpa@bb.is
Oriana siglir inn í höfnina í Sydney í Ástralíu.
