07.04.2014 21:14

Kaupa bát og kvóta til Bolungarvíkur


            2340. Valgerður BA 45, í Njarðvíkurhöfn © mynd Emil Páll, 30. maí 2011 - í dag heitir báturinn Margrét SH 177

 

 Af bb.is:

 
 

Mýrarholt ehf., í Bolungarvík hefur keypt togbátinn Margréti SH 177 frá Rifi. Fyrirtækið keypti einnig 12% aflahlutdeild í innfjarðarækju í Ísafjarðardjúpi. Guðmundur Einarsson útgerðarmaður í Bolungarvík á Mýrarholt ásamt Jóni Þorgeiri bróður sínum og sonum þeirra beggja. Guðmundur var í prufusiglingu á Breiðafirði þegar blaðamaður náði í hann. Aðspurður hvort frekari aflaheimildir en hlutdeildin í Djúprækjunni hafi fylgt með í kaupunum segir Guðmundur svo ekki vera. „Því er nú verr og miður, það verður ekki ennþá í það minnsta,“ segir Guðmundur. Báturinn verður fyrst og fremst á rækju en Guðmundur segir að seinna komi í ljós hvort að önnur tækifæri opnist, til að mynda með dragnótarveiðar. Rækjukvótinn sem Guðmundur og félagar kaupa var áður á Matthíasi SH sem var á rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi í vetur.

Báturinn hét áður Valgerður BA 45 Upp í kaupin fara tveir handfærabátar 7160. Ásdís ÍS 2 og 7388. Vísir ÍS 424. Margrét SH er smíðuð í Póllandi og kláruð hjá Ósey í Hafnarfirði árið 1999. Báturinn var skutlengdur árið 2008 og hefur áður borið nöfnin Friðrik Bergmann SH, Bára SH og Valgerður BA.

smari@bb.is