28.03.2014 14:58
Vísir flytur alla vinnslu til Grindavíkur
ruv.is:

Útgerðar og fiskvinnslufyrirtækið Vísir hf. áformar að flytja alla fiskvinnslu sína til Grindavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Vísir hefur byggt upp starfsemi á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík, auk Grindavíkur.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að á hverjum þessara staða starfi um 50. Alls vinna um 300 hjá Vísi - 200 við fiskvinnslu, og 100 á skipum fyrirtækisins. Stjórnendur Vísis skoða nú þann möguleika að flytja alla fiskvinnslu fyrirtækisins í áföngum til Grindavíkur en vinna um leið að uppbyggingu nýrra starfa í hinum bæjarfélögunum þremur. Línuveiðibátum fyrirtækisins verður fækkað úr fimm í fjóra. Sjómönnum útgerðarinnar fækkar lítillega þar sem áhafnir verða sameinaðar. Stjórnendur Vísis segjast vonast til að sem flestir haldi vinnu sinni, annað hvort í breyttri mynd á sama stað eða í sömu vinnu á nýjum stað og aðstoða þá starfsfólk við búferlaflutninga og ferðalög sem þeim fylgir.
