22.03.2014 19:37

Magnús SH 205, komin heim eftir breytingarnar

Hátíðisstund var á bryggjunni í Rifi um hádegisbil í dag þegar Magnús SH kom til heimahafnar. Skipið er hið glæsilegasta eftir algjöra endurnýjun í skipasmíðastöð Þ&E á Akranesi. Eins og kunnugt er var nær lokið við ýmsar breytingar á skipinu í fyrrasumar þegar eldur kom upp í því. Var í kjölfarið ákveðið að gera bátinn upp og virðist sem sú framkvæmd hafi tekist prýðilega. Frá því Magnúsi SH var síðast siglt til veiða er búið að lengja bátinn og skipta um brú. Miklar breytingar hafa auk þess verið gerðar á vistarverum eins og komið hefur fram í viðtölum og fréttum í Skessuhorni. Ráðgert er að skipið haldi þegar á morgun til veiða. Það er útgerð Sigurðar Kristjónssonar og fjölskyldu, Skarðsvík ehf, sem gerir bátinn út - Texti og mynd Alfons Finnsson


           1343. Magnús SH 205, kemur í dag til Rifs © mynd Alfons Finnsson, 22. mars 2014