19.03.2014 16:54
Tók "Wrecking Ball" úti á sjó
Þessi frétt hefur farið eins og eldur í sinu út um netheima í dag og var tekin um borð í Höfrungi III AK 250
Örvar Helgason háseti á Höfrungi III Ak 250 kann svo sannarlega að skemmta sér og öðrum um borð, enda segir hann að það sé nauðsynlegt að hafa húmorinn í lagi þegar menn eru úti á sjó í mánuð í senn.
Í dag birti Örvar mynd af sér þar sem hann gerir sýna útgáfu af myndbandi Miley Cyrus við lagið Wrecking Ball.
„Mér datt bara í hug í morgun að taka mynd af mér þar sem ég leik Miley Cyrus. Ég fékk svo strákana til að græja þetta með mér eftir vaktina. Þetta eru bara svona almenn fíflalæti,“ sagði Örvar.
Aðspurður hvort að honum hefði ekki verið kalt er hann stillti sér upp fyrir myndatökuna svaraði hann: „Mér var ekki kalt enda verður alvöru vetrarsjómönnum aldrei kalt.“
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Örvar fær hugmynd að því að gera eitthvað skemmtilegt um borð. „Við fáum stundum einhverjar svona bjánahugmyndir. Á myndunum þar sem við erum í ofurhetjubúningum var ég á Venusi hf-519. Við vorum nýbúnir að horfa á einhverja heimildamynd um fólk sem klæddi sig upp í ofurhetjubúninga og fór út á kvöldin að stöðva glæpi. Þetta var dauðans alvara og að sjálfsögðu Ameríkanar. Eftir þessa heimildarmynd stakk ég uppá því að halda svona keppni um borð enda var lítið fiskerí í gangi,“ sagði Örvar og eins og sjá má á myndunum tóku sjómennirnir þessu þema ekki síður alvarlega.

