30.01.2014 16:17
FGS BONN, birgða- og flutningaskip þýska flotans - verður til sýnis við Skarfabakka
BONN A 1413, í Kiel © mynd MarineTraffic, Nils Junge, 8. apríl 2013
Af vef Landhelgisgæslunnar:
FGS BONN, birgða- og flutningaskip þýska flotans kom í gærmorgun til Reykjavíkurhafnar en skipið mun liggja við Skarfabakka meðan á kurteisisheimsókn skipsins stendur. Skipið verður opið til sýnis á morgun föstudag og laugardag milli klukkan 13:00-16:00.
Meðan skipið er við landið mun það verða við æfingar með Landhelgisgæslunni og björgunarþyrlum finnska flughersins sem auk þess taka þátt í æfingunni Iceland Air Meet 2014.FGS BONN var smíðað á árunum 2009-2012 og afhent í september 2013 í Wilhelmshaven. Reynslusiglingar skipsins hafa staðið yfir frá febrúar 2013 en prófanir þurfa að fara fram við ólíkar veðurfarslegar aðstæður. Fyrsti hluti reynslusiglingarinnar fer fram á Norður Atlantshafi, er síðan siglt áfram til Karíbahafsins og Gíneuflóa áður en haldið verður tilbaka til Þýskalands í maí 2014. FGS BONN er nú að koma beint frá Wilhelmshaven en næstu hafnir eru áætlaðar Halifax í Kanada, New York í Bandaríkjunum, Santo Domingo í Dóminíkanska lýðveldinu, Lagos í Nígeríu, Cotonou í Benin, V - Afríku og Las Palmas á Kanaríeyjum.
Skipið er 20.000 tonn að stærð, 174 m að lengd og 24 m að breidd en það ristir 7.4 metra. Um borð er aðstaða fyrir 237 manns þ.a.m. þyrluáhöfn og sjúklinga.
