26.01.2014 18:24
Ísfélag Vestmannaeyja kaupir Dala - Rafn VE 508

2758. Dala Rafn VE 508, í Vestmannaeyjum © mynd Halldór Guðmundsson, 20. júlí 2013
mbl.is.:
Ísfélag Vestmannaeyja hf. hefur gert samning um kaup á öllum hlutabréfum í útgerðarfélaginu Dala-Rafni ehf. sem gerir út togbátinn Dala-Rafn VE 508. Báturinn var smíðaður í Póllandi árið 2007. Aflaheimildir félagsins á yfirstandandi fiskveiðiári eru tæp 1.600 þorskígildistonn.
Kaupin eru liður í hagræðingaraðgerðum Ísfélags Vestmannaeyja hf., ekki síst í kjölfar sífellt aukinnar skattheimtu stjórnvalda á útgerðarfélög, segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
"Er sú skattlagning komin út yfir öll mörk þess sem getur talist sanngjarnt og eðlilegt. Með kaupunum styrkir Ísfélagið mjög veiðar og vinnslu félagsins á bolfiski. Ísfélagið rekur fjölþætta fiskvinnslu í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Félagið gerir út 6 skip og hefur eitt í smíðum í Tyrklandi," " segir ennfremur tilkynningunni en ekki kemur fram hvað Ísfélagið greiðir fyrir Dala-Rafn.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. er elsta starfandi hlutafélag á landinu, stofnað 1. desember árið 1901.
