06.12.2013 07:00

Miklar tafir á niðurrifi Fernöndu


           Fernanda í Þorlákshöfn fyrir meira en ári síðan © mynd Ragnar Emilsson, 4. maí 2012

Texti: Ruv.is:


Hringrás þarf að skila óvenju ítarlegum upplýsingum til Heilbrigðiseftirlitsins áður en niðurrif skipsins Fernöndu getur hafist í Helguvík. Kostnaður Hringrásar vegna skilyrðanna er orðinn meiri en búist var við.

Meðal þess sem fyrirtækið þarf að standa skil á er vátrygging vegna bráðamengunar, kvittun fyrir tæmingu spilliefna og olíu, teikningar af skipinu, Helguvíkurhöfn og nærliggjandi íbúðahverfi, upplýsingar um staðsetningu og geymslu spilli- og úrgangsefna og járns sem fellur til við niðurrifið og öruggar heimildir fyrir því að ekkert asbest sé í skipinu. Magnús Guðjónsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, segir ástæðu krafnanna vera staðsetning niðurrifsins. "Það stendur til að rífa þetta skip í höfninni í Helguvík, þar sem er í rauninni ekki aðstaða til þess að rífa skip. Við erum þess vegna með mjög ströng skilyrði fyrir því," segir hann.

Hert eftirlit vegna fjölmiðlaumfjöllunar                                                                                      

Hringrás rífur að meðaltali um fimm skip á ári. Ásmundur Einarsson, umhverfis- og gæðastjóri fyrirtækisins, segir að skilyrði heilbrigðiseftirlitsins séu mun strangari nú en alla jafna og því hafi ferlið tekið lengri tíma en búist var við. Hann undirstrikar þó að vissulega sé nauðsynlegt að hafa allt á hreinu, en telur að ein af ástæðum eftirlitsins sé öll athyglin sem skipið hefur fengið í fjölmiðlum. "Þetta er alltaf að verða dýrara og dýrara, það er nokkuð ljóst," segir Ásmundur.  

Hringrás vonast þó til þess að geta fengið leyfi fyrir varanlegri staðsetningu til að rífa niður skip á landfyllingu í Helguvík þegar staðfesting er komin frá eftirlitinu. Fernanda hefur verið í Njarðvik í tvær vikur og búist er við því að hægt verði að draga skipið til Helguvíkur 18. desember. 


                       Fernanda í Njarðvíkurhöfn © mynd Emil Páll, 18. nóv. 2013