03.12.2013 15:00

Jón Gunnlaugs ST 444 og vandræðagangurinn

Ekki er hægt að segja annað en að mikill vandræðagangur hafi verið í kring um þennan bát síðari hluta sumars og í haust.

Fyrri hluta sumarsins var hann gerður út af aðila úr Hafnarfirði til veiða á Eldeyjarrækju, en útgerðin sótti líka um leyfi til túnfiskveiða þegar þær veiðar voru í umsóknarferli. Útgerð Stafnes KE, sótti líka um veiðar þessar, en veiðar á túnfiski voru stundaðar á því skipi á síðasta ári. Hvort fleiri sóttu um veiðileyfi veit ég ekki, en þar sem aðeins var um eitt veiðileyfi að ræða var dregið um hver fengi það og kom það í hlut Jóns Gunnlaugs og hætti hann því á rækjuveiðunum og fór til túnfiskveiða. Ekki gekk það þó eins og menn áttu von á og segja fregnir að báturinn hafi raunar ekki fengið neitt og því var honum lagt fljótlega við bryggju í Vestmannaeyjum.
Þar var brotist inn í hann og stolið ýmsum tækjum á svipuðum tíma og báturinn var söluferli, sem síðan varð að dagaði uppi og engin eigendaskipti urðu á bátnum.
Fenginn var þekktur skipstjóri til að sækja bátinn og var honum siglt til Sandgerðis þar sem hann er nú og herma fregnir að sá eigandi sem gerði hann út í vor og er enn eigandi bátsins stefni á að gera hann út á Eldeyjarrækju að nýju.


          1204. Jón Gunnlaugs ST 444, að koma inn til Sandgerðis á síðasta sumri © mynd Emil Páll, 5. júlí 2013