22.11.2013 16:35
Heimila síldveiðar innan brúar
ruv.is:
„Við höfum gefið út reglugerð og ég mun heimila frjálsar veiðar smábáta fyrir innan brú,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra um viðbrögð stjórnvalda við því að Kolgrafafjörður er fullur af síld, og heimamenn óttast síldardauða eins og varð síðastliðinn vetur.
Sigurður Ingi segir tilganginn með veiðunum bæði að bjarga verðmætum sem ella yrðu að engu við síldardauða og til að reyna að fæla síldina út úr firðinum. „Ég vil leggja mikla og ríka áherslu á að menn fari varlega við þessar aðgerðir því það er ekki auðvelt að fara undir brúna og inn í fjörðinn.“
Sjávarútvegsráðherra segir að það tæki langan tíma og myndi kosta 500 til 600 milljónir króna að breyta vegarstæðinu. „Við sáum fyrir að við myndum aldrei geta náð því fyrir veturinn auk þess sem rannsóknir sem fóru af stað í sumar þurfa eitt ár til að sjá hvernig straumar liggja og hvort orsökin sé þarna,“ segir Sigurður Ingi. „Til viðbótar höfum við líka undirbúið það í samstarfi við innanríkisráðuneytið að , ef til þess kemur að það stefni í stórtjón, þá íhugum við að taka veginn í sundur til að skapa hringrás á vatninu. Þar fyrir utan hefur Hafrannsóknastofnun verið með í undirbúningi hvalahljóðafælur og annað í þeim dúr. Það verður allt gert sem hægt er til að bjarga þeim verðmætum sem þarna hugsanlega myndu fara en það verður að vega það og meta á hverjum tímapunkti hvernig það fer.“
