14.11.2013 15:29
Rakst utan í tvö skip á Ísafirði
bb.is., í gær:
Togarinn Frosti ÞH frá Grenivík keyrði utan í tvo báta, Örn ÍS og Gunnbjörn ÍS, í Ísafjarðarhöfn á ellefta tímanum í gærmorgunn, þegar hann fékk dekk í skrúfuna og rak um í höfninni. "Frosti var að fara frá bryggju þegar hann fær dekk í skrúfuna, sem er nokkuð algengt í höfninni, og kemur svo rekandi utan í Gunnbjörn. Það sést ekkert á honum sem betur fer en síðan keyrir hann á Örn ÍS en við vorum um borð í honum þá. Þetta var smá högg en ekkert rosalegt. Þetta er trébátur sem gefur náttúrulega eftir. Ég hljóp til og náði í spotta til að binda Frosta við Gunnbjörn svo hann ræki ekki utan í fleiri báta," segir Halldór Magnússon, annar skipverja á Erni ÍS.
Hann segir að nokkrar skemmdir hafi orðið á Erni en ekki alvarlegar. "Það brotnuðu þrjár styttur sem halda uppi skjólborðum," segir Halldór. Harald og Silvia Paul frá Bæjaralandi, sem er syðsta sambandsland Þýskalands, voru einnig stödd í höfninni á skútu sinni og fylgdist Harald með Frosta þegar hann fara frá höfninni og sá því þegar hann fór að reka. Áttaði hann sig strax í hvað stefndi og stökk í gallann og Silvia setti vélina í gang. Með hníf að vopni hélt hann upp á bryggju og stóð þar tilbúinn við landfestarnar tilbúinn til að skera á ef Frosti skyldi reka í átt að skútunni. Að sögn Haralds hefði tekið of langan tíma að leysa festarnar því það hafði snjóað og kólnað verulega í nótt svo spottarnir hefðu verið erfiðir viðfangs og tekið of langan tíma að reyna að leysa. Fylgdust þau Silvia með hvernig Frosti keyrði á Örn og Gunnbjörn en þegar þau sáu skjót viðbrögð þeirra sem voru um borð í bátunum gátu þau andað léttar, hættan var liðin hjá.
Meðfylgjandi myndir tók Harald en þau hjónin halda úti bloggi þar sem þau segja frá ævintýrum sínum á skútunni.

2433. Frosti ÞH, rakst utan á báta í höfninni á Ísafirði © mynd Harald Paul
AF FACEBOOK:
Emil Páll Jónsson Af bb. núna áðan - Fór ekki utan í Gunnbjörn ÍS
Frosti ÞH frá Grenivík fór ekki utan í Gunnbjörn ÍS að sögn Þorsteins Harðarsonar skipstjóra Frosta en BB greindi frá því fyrr í dag að togarinn hefði rekist utan í tvö skip í Ísafjarðarhöfn, Gunnbjörn ÍS og Örn ÍS. „Ég vil fá að leiðrétta það að Frosti hafi farið utan í Gunnbjörn. Það náðist að setja fríholt á milli sem betur fer svo við fórum ekkert utan í hann,“ segir Þorsteinn. „Það fór vörubílsdekk í skrúfuna og þá klossaðist allt fast þannig að við rákum stjórnlausir í höfninni,“ segir Þorsteinn. Aðspurður hvort skrúfan hafi skemmst við þetta segir hann: „Nei, hún slapp alveg. Kafarinn gat bundið í dekkið ofurtóg [mjög sterk togtaug] og þannig gátum við hýft dekkið í burtu.“
