30.10.2013 16:40

Voru dregnir sótugir um borð í þyrluna

mbl.is:

Skipverjar á flutningaskipinu Fernanda voru sumir hverjir dregnir sótugir upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ekkert amaði þó að mönnunum, en þyrlan lenti með þá á Reykjavíkurflugvelli síðdegis.

Sigurður Heiðar Wiium, flugmaður á þyrlunni, segir að þegar  þyrlan kom að Fernanda hafi brúin verið alelda, en skipverjarnir hafi hins vegar verið komnir í öruggt skjól. Skipið hafi verið vélarvana og því stjórnlaust.

Sigurður segir að vel hafi tekist að bjarga áhöfninni, en ekki hafi mátt miklu muna. Vont var í sjóinn og aðstæður því allar erfiðar. Um 20 mínútur tók að hífa mennina upp.

Sigurði hafði ekki gefist tækifæri til að ræða mikið við skipverjana, en hann segir að það hafi strax verið ljóst að þeir myndu ekki ráða við eldinn. Þeir hafi hins vegar eitthvað reynt í upphafi að slökkva því sumir þeirra voru sótugir.


             Fernanda, 20 mílur frá Vestmannaeyjum í dag © mynd mbl.is. 30. okt. 2013