30.10.2013 19:56

Þór tók vistir í Sandgerði á leið til Ferranda, en Ferranda var á leið til Sandgerðis

vf.is. í dag:

Fréttir | 30. október 2013 17:46

Þór tók vistir við Sandgerði

Varðskipið Þór hafði stuttan stans utan við Sandgerði nú áðan á leið sinni í björgunarleiðangur suður fyrir Vestmannaeyjar.

Varðskipsmenn fóru úr höfn í Reykjavík án þess að taka vistir og var björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein fengið til að sigla með kostinn um borð í Þór.

Ferð Þórs er heitið að flutningaskipinu Fernanda sem brennur sunnan við Eyjar. Flutningaskipið var á leiðinni til Sandgerðis þegar eldur kom upp í vélarrúmi þess. Áhöfn skipsins var bjargað í þyrlu Landhelgisgæzlunnar í dag.

                                                                   ---

                                   Mynd: Landhelgisgæzlan.
 

Flutningaskip á leið til Sandgerðis brennur

Flutningaskipið Fernanda sem nú brennur sunnan við Vestmannaeyjar var á leið til Sandgerðis þar sem það átti að sækja frystar afurðir hjá fóðurframleiðandanum Skinnfiski

Þyrlan TF-GNA hefur nú bjargað áhöfn skipsins, 11 manns, og eru allir heilir á húfi. Þyrlan flytur fólkið til Reykjavíkur. Brú skipsins var orðin alelda og skipverjar komnir út á þilfar er þyrlan kom að.

Varðskipið Þór er á leiðinni á staðinn og mun freista þess að slökkva eldinn, segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.

Flutningaskipið Fernanda strandaði við innsiglinguna í Sandgerðishöfn 5. maí árið 2012. Skipið mun hafa komið of hratt í innsiglinguna og því strandað. Skemmdir voru litlar og losnaði skipið af sjálfsdáðum af strandstað.





                                   © myndir: Landhelgisgæslan og texti: vf.is í dag, 30. okt. 2013