30.10.2013 14:11

Ellefu um borð í skipi sem kviknaði í

ruv.is

 
 
 
 

Björgunarfélag Vestmannaeyja var kallað út skömmu eftir hádegi vegna elds í farskipinu Fernando sem var þá 18 sjómílur suður af Vestmannaeyjum , um 30 kílómetra. Ellefu menn eru í áhöfn skipsins. Björgunarbáturinn Þór er farinn til móts við skipið og hafnsögubáturinn Lóðsinn.

Skipið siglir undir flaggi dóminíkanska lýðveldisins. Adolf Þórsson, formaður Björgunarfélagsins, segir að, búast megi við eins og hálfs klukkustundar siglingu. Búið er að kalla á skip í nágrenninu. Áhersla er lögð á að koma mönnum frá borði.  Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og búnaður til reykköfunar eru einnig á leið á staðinn, samkvæmt frétt á vef Eyjafrétta. Vont er í sjóinn og hvasst við Stórhöfða, þar er nú 27 metra meðalvindhraði á sekúndu en mestu hviðurnar hafa farið upp í 34 metra. Ölduhæð við Surtsey er 4,2 metrar. 

Landhelgisgæslan hafði samband við skipið og fékk þær upplýsingar að eldur væri kominn upp í því og áhöfnin réði illa við hann. Skipstjóri óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við að rýma skipið. Þyrlur LHG og hafa verið kallaðar út auk þess sem varðskipið Þór er í viðbragðsstöðu. Auk björgunarskipsins Þórs í Vestmannaeyjum og björgunarskipin í Grindvík sett í viðbragðsstöðu.

Skipið er orðið vélarvana, á svæðinu er mjög slæmt veður og haugasjór.