29.10.2013 22:22
Lundey tók niðri á Breiðafirði

155. Lundey NS 14 © mynd HB. Grandi
Litlar skemmdir urðu á Lundey NS eftir að skipið tók niðri þar sem
það var að síldveiðum á Hofsstaðavogi í Breiðafirði laust fyrir hádegi
sl. sunnudag. Tvö botnstykki fyrir asdik skemmdust og smá dæld kom á
svokallaðan kassakjöl. Skipið losnaði eftir að sjó var dælt úr
kjölfestutönkum og er það nú á Akranesi þar sem beðið er eftir
varahlutum.
Að sögn Karls Sigurjónssonar skipaeftirlitsmanns HB Granda á Akranesi eru aðstæður á Hofsstaðavogi mjög erfiðar fyrir skip með stórar nætur. Skipin hafa verið að veiðum í djúpum ál á milli lands og Purkeyjar, skammt utan við Kóngsbakka, en sitthvoru megin við dýpið grynnkar hratt. Skipverjar á Lundey voru að undirbúa fyrsta kast veiðiferðarinnar þegar óhappið varð og segir Karl það vera lán í óláni að nótin hafi ekki verið komin í sjó þegar skipið tók niðri.
Karl reiknar með því að Lundey komist til veiða að nýju um næstu helgi.
