25.10.2013 09:42

Fjórðungur kvótans á tveimur dögum

bb.is:

 

Jón Páll Jakobsson.
Jón Páll Jakobsson
á Bíldudal © mynd bb.is

 

Rækjusjómenn í Arnarfirði eru síst sáttari við kvótaúthlutun í firðinum en rækjusjómenn við Ísafjarðardjúp. Í Arnafirði verður leyft að veiða 190 tonn í ár samanborið við 437 tonn á síðasta ári. „Við erum mjög óánægðir með úthlutunina þetta árið,“ segir Jón Páll Jakobsson, rækjuveiðimaður í Arnarfirði.

„Það sem við erum svo óhressir með er rannsóknin, hún er ekkert að ná utan um stofninn. Rækjustofninn virðist vera búinn að aðlaga sig að breytingum sem hafa orðið, og er á öðrum stöðum núna en hann hefur verið. Þeir tala um að vísitalan, sem þeir kalla, sé eins og hún var 2011, þegar við fengum að veiða 200 tonn. Þá var ekki svona góð veiði þegar við byrjuðum, langt frá því. Það er búið að veiða tvo daga hérna, og búið að veiða fjórðung af kvótanum. Hvers vegna þeir finna svona mikið minni rækju, það er okkur óskiljanlegt. Þeir mæla minna af þorski og minna af ýsu, og það eru víst þeir fiskar sem eiga að hafa étið rækjuna, en stofninn minnkar samt.“